„Við erum yfir okkur spennt að kynna í dag algjörlega magnaða vöru: Skyr með kæstum hákarli!“
Á þessum orðum hófst Facebook-færsla Siggi's skyrframleiðandans í dag. Sagði í færslunni að með þessari nýjustu vöru væri verið að halda í heiðri gömlum íslenskum matarhefðum, „eldsneyti víkinganna“ eins og það var orðað.
Kom fram að í skyrinu væru stórir bitar af hákarli svo að neytandinn gæti notið bragðsins og lyktarinnar til fullnustu. „Þú munt aldrei trúa bragðlaukum þínum aftur!“
Um 3.000 manns hafa „lækað“ færsluna en einhverjir sem voru ekki alveg vissir hvort að um aprílgabb væri að ræða spurðu að því hreint út: Þetta er örugglega aprílgabb er það ekki?“ spurði einn og uppskar blikk-kall frá Siggi's að launum.
Sigurður Hilmarsson er stofnandi og forstjóri Siggi's. Nýverið keypti franski mjólkurvöruframeiðandinn Lactalis fyritækið en Sigurður er þó enn forstjóri þess.