Steve Wozniak, meðstofnandi Apple, ætlar að hætta á Facebook vegna áhyggja af því hvernig samfélagsmiðillinn fer með persónuupplýsingar notenda sinna.
Fréttavefur CNBC greinir frá og byggir á svari Wozniaks til USA Today. „Notendur upplýsa Facebook um hvert einasta smáatriði í lífi þeirra og Facebook hagnast verulega á þessum upplýsingum gegnum auglýsingatekjur,“ sagði Wozniak. „Hagnaðurinn er byggður á upplýsingum um notendur sem sjá sjálfir ekki krónu af honum.“
Wozniak sagði að hann myndi frekar borga fyrir Facebook en að láta fyrirtækið notfæra sér persónuupplýsingar sínar í hagnaðarskyni og hrósaði hann Apple fyrir að bera virðingu fyrir einkalífi fólks.
„Apple hagnast á góðum vörum, ekki notendum,“ sagði hann. „Eins og sagt er, á Facebook ert þú sjálfur varan.“
Facebook hefur legið undir harðri gagnrýni eftir að upp komst að fyrirtækið Cambridge Analytica hefði nýtt persónuupplýsingar Facebook notenda til að reyna að fá ókveðna kjósendur til að kjósa Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum haustið 2016.
Persónuupplýsingar um 50 milljóna manna af Facebook voru nýttar, án þeirra vitneskju, til að útbúa umfangsmikinn gagnagrunn um bandaríska kjósendur.