Frumvarp um þjóðarsjóð næsta vetur

Landsvirkjun gerði raforkusamning við Thorsil um 55 megavött. „Og við …
Landsvirkjun gerði raforkusamning við Thorsil um 55 megavött. „Og við erum enn í samstarfi við þá. Það verkefni hefur ekki gengið samkvæmt áætlun og það liggja enn ekki fyrir endanlegar áætlanir um hvort og hvenær þeir nái að ljúka því,“ segir Hörður. mbl.is/Golli

Fyrirhugað er að ljúka við undirbúning að stofnun nýs þjóðarsjóðs næsta vetur og samhliða því að leggja fram lagafrumvarp á Alþingi um stofnun sjóðsins. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki til starfa árið 2020.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti hugmyndina um sjóðinn á ársfundi Landsvirkjunar fyrir tveimur árum og sagði þá að í sjóðinn færu meðal annars arðgreiðslur frá fyrirtækinu. Talaði Bjarni um að innan 2-3 ára kæmu árlega á bilinu 10-20 milljarðar í arðgreiðslur frá Landsvirkjun.

Í nóvember sagði Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, að fyrirtækið gæti greitt um 110 milljarða í arðgreiðslu á árunum 2020 til 2026. Í febrúar í ár, þegar uppgjör fyrirtækisins var kynnt, sagði Hörður svo að Landsvirkjun væri tilbúið að auka arðgreiðslurnar í skrefum, en að eigandinn réði því.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Orkusala Landsvirkjunar var árið 2017 sú mesta frá upphafi og var hagnaður félagsins 11,2 milljarðar. Á aðalfundi í síðustu viku var hins vegar ákveðið að greiða aðeins 1,5 milljarða í arð til ríkisins, en það er sama upphæð og var greidd af 6,7 milljarða hagnaði fyrir árið 2016.  Þá sagði Hörður einnig á uppgjörsfundinum í febrúar að framundan væri ekki heppilegur framkvæmdatími fyrir Landsvirkjun. Sagði hann að fara þyrfti af stað aftur eftir 3-4 ár.

Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um stöðu þjóðarsjóðsins sem m.a. arðgreiðslur Landsvirkjunar eiga að renna til, segir að sérfræðinefnd hafi unnið að málinu frá því snemma á árinu 2017. Hafa drög að frumvarpi um sjóðinn verið samin og er unnið að nánari útfærslu þess af hálfu stjórnvalda. Á að leggja frumvarpið fram á næsta þingi.

Hlutverk sjóðsins verður tvíþætt, bæði sem vörn við þjóðhagslegum áföllum og að fjármagna verkefni ríkisins. „Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er gert ráð fyrir að sjóðurinn varðveiti og ávaxti tekjur af auknum arðgreiðslum frá orkuvinnslufyrirtækjum í eigu ríkisins og gegni því megin hlutverki að verða eins konar áfallavörn þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag. Einnig liggja fyrir áform af hálfu stjórnvalda um að nýta hluta af þessum arðgreiðslutekjum til að styðja við nýsköpun í atvinnulífinu og til að auka við fjármagn til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum,“ segir í svari ráðuneytisins.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Golli

Framundan er svo að ganga frá arðgreiðslustefnu fyrir orkuvinnslufyrirtækin í samráði við stjórnir félaganna, en áætlað er að unnt verði að byrja að hækka arðgreiðslur í þeim mæli og láta renna í sjóðinn frá og með árinu 2020.

Fjárreiður sjóðsins eru því ekki inn í fjármálaáætlun sem nýlega var samþykkt, en að fjárreiður umræddra verkefna fari inn í fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 sem verður lögð fram á næsta þingi.

Þjóðarsjóður var meðal þeirra málefna sem kveðið er á um í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka