Fyrsta Radisson RED-hótelið á Norðurlöndunum verður opnað í Reykjavík árið 2020. Hótelið er hluti af Radisson Hotel Group-samsteypunni og í hæsta gæðaflokki hótelkeðjunnar.
„Það er með mikilli ánægju sem við kynnum nýja Radisson RED-vörumerkið okkar í Reykjavík, þar sem ferðamennskan blómstrar í umhverfi stórkostlegs borgarlífs og náttúrufegurðar,“ er haft eftir Elie Younes, varaframkvæmdastjóra og þróunarstjóra Radisson Hotel Group, í tilkynningu.
Radisson RED-hótel er meðal annars að finna í Brussel, Höfðaborg, Glasgow og Minneapolis. Radison RED-hótelið verður fjórða hótelið undir merkjum keðjunnar á Íslandi og bætist í hóp Radisson Blu 1919 í miðborginni, Radisson Blu Hótel Sögu í Vesturbæ Reykjavíkur og Park Inn by Radisson í Keflavík.
Hótelið verður staðsett í miðbænum og áætlað er að það opni á vormánuðum 2020. Herbergin verða 195 talsins á 17 hæðum.
„Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi við Radisson Hotel Group um opnun nútímalegs og spennandi Radisson RED-hótels sem mun skarta stórbrotnu útsýni yfir borgina,“ er haft eftir Inga Guðjónssyni, stjórnarformanni Rauðsvíkur ehf. og S26 Hotel ehf.