Nýjasta vél WOW air lenti í dag Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða nýja Airbus A321ceo-þotu sem kemur beint frá verksmiðju Airbus í Hamborg og verður strax notuð í áætlunarflug.
Vélin ber skráningarnúmerið TF-DOG, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá WOW air. Hún inniheldur 208 sæti, þar af átta breiðari sæti með meira sætabili. Vélin kemur til með að fljúga innan Evrópu og til Bandaríkjanna. Þetta er nítjánda vél WOW air en fyrir lok árs 2018 mun floti WOW air samanstanda af 24 nýjum Airbus flugvélum.
WOW kynnti í síðustu viku betrumbætta þjónustu í viðskiptafarrými undir heitinu WOW premium og ætlar þannig í harða samkeppni um markhóp sem fullþjónustufélög (legacy airlines) hafa haft miklar tekjur af.
Þá var greint frá því á mbl.is í dag að fyrsta A330-900neo-breiðþotan af þeim fjórum sem flugfélagið WOW air fær afhentar á árinu sé komin úr málun hjá flugvélaframleiðandanum Airbus.