Þegar tólf stærstu sveitarfélög landsins eru borin saman út frá rekstrarmælikvörðum kemur í ljós að þau sem koma best út taka hlutfallslega minnst til sín í formi skattheimtu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.
Akranes, Seltjarnarnes og Garðabær koma best út þegar fjárhagsstaða sveitarfélaganna er borin saman, en Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnarfjörður verst. Seltjarnarnes, Garðabær og Vestmannaeyjar innheimta hlutfallslega lægstu skattana af meðaltekjum íbúa sinna á sama tíma og Akureyri, Fjarðabyggð og Reykjavík taka hlutfallslega mest til sín.
Þá mælist ánægja íbúa með leik- og grunnskóla mest í þeim sveitarfélögum sem koma best út úr rekstrarsamanburðinum.