Breska fyrirtækið Cambridge Analytica hefur farið fram á gjaldþrotaskipti í Bandaríkjunum að því er fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar.
Fyrirtækið hefur ítrekað komið við sögu í tengslum við kosningaspjöll í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.
Fyrirtækið er m.a. sagt hafa haldið úti auglýsingaherferðum sem voru ætlaðar til þess að draga úr kosningaþátttöku ákveðins hóps kjósenda í bandarísku forsetakosningunum. Þetta fullyrti Christopher Wylie, uppljóstrarinn sem greindi frá því að Cambridge Analytica hefði nýtt sér persónuupplýsingar milljóna Facebook-notenda til að aðstoða Donald Trump að hafa sigur í kosningunum, í yfirheyrslu hjá dómsnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Talsmaður fyrirtækisins greindi frá því snemma í maí að það hygðist loka starfsstöðvum sínum bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.