Keyptu fasteignir á Spáni fyrir milljarð í fyrra

Íslendingar sækja í eignir við Orihuela Costa ströndina að sögn …
Íslendingar sækja í eignir við Orihuela Costa ströndina að sögn Steinunnar. Skjáskot/Medland

Íslendingar keyptu fasteignir á Spáni fyrir átta milljónir evra, eða tæpan milljarð króna, í fyrra í gegnum fasteignasöluna Mediland. Steinunn Fjóla Jónsdóttir, markaðsstjóri hjá Medland, segir mikinn stíganda hafa verið í sölu til Íslendinga frá því að gjaldeyrishöftin voru afnuminn.

Alls keyptu Íslendingar 47 eignir á Spáni í fyrra í gegnum þessa spænsku fasteignasölu, þar sem Steinunn er markaðsstjóri Íslandsmarkaðar. Hún segir tvær fasteignasölur til viðbótar selja Íslendingum eignir og þá séu íslenskir fasteignasalar einnig farnir að sýna Spánarmarkaðinum áhuga. Heildarupphæð fasteignakaupa Íslendinga á Spáni í fyrra kann því að fara nokkuð yfir milljarð króna.

Medland hélt ráðstefnu í Hörpu um helgina og mættu nokkur hundruð manns til að kynna sér fasteignir og fasteignaviðskipti á Spáni. Með Medland í för voru fulltrúar frá átta spænskum byggingaraðilum við Costa Blanca og Costa Cálida sem kynntu fyrir gestum sín helstu verkefni.

„Við opnuðum á Íslandsmarkað í apríl 2016,“ segir Steinunn en fyrirtækið hefur verið með starfsemi á Torrevieja frá 2013. „Það var hægur stígandi í sölunni á Íslandi 2016, en svo losnaði um gjaldeyrishöftin áramótin 2016-2017 og eftir það fór hún hratt upp á við.“ Hún segir mikinn áhuga hjá landanum á Spánareignum og margir setji sig í samband við fasteignasöluna.

Steinunn Fjóla Jónsdóttir, markaðsstjóri Íslandsmarkaðar hjá Medland, segir kaup Íslendinga …
Steinunn Fjóla Jónsdóttir, markaðsstjóri Íslandsmarkaðar hjá Medland, segir kaup Íslendinga á fasteignum á Spáni hafa tekið stökk upp á við eftir að gjaldeyrishöftin voru afnumin. Ljósmynd/Aðsend

Stór hópur kaupenda í kringum fimmtugt

Orihuela Costa ströndin og þau svæði sem eru sunnan við Alicante virðast njóta hvað mestra vinsælda hjá Íslendingum í fasteignahugleiðingum og eru þeir mun færri sem sækja í að vera norðan megin. „Það vilja flestir vera sunnan við Alicante og sem næst flugvellinum,“ útskýrir Steinunn.

Hún segir íbúðir seljast vel, en einnig séu sumir að leita að einbýlishúsum. „Þá er það kannski stórfjölskyldan sem er að fjárfesta saman,“ segir Steinunn og kveður allan gang á því hvort að hjón séu að fjárfesta ein í íbúð, eða hvort að heilu fjölskyldurnar og jafnvel vinafólk standi saman að kaupunum. „Þetta er blanda af þessu öllu.“

Eins séu kaupendurnir á öllum aldri. „Stór hópur er t.d. fólk í kringum fimmtugt, en svo er ég líka með ungt fólk sem er að kaupa til að hafa það gott og fjárfesta.“

Eignirnar sem eru í boði kosta frá andvirði 15 milljón króna og upp úr og segir Steinunn dýrustu eignirnar sem Íslendingar hafi verið að kaupa kosta rúmar 60 milljónir króna. „Við höfum t.d. selt stórar þakíbúðir fyrir hálfa milljón evra og raðhús í fyrstu línu við strönd fyrir rúma hálfa milljón evra. Þetta eru hins vegar undantekningarnar og flestir eru að kaupa eignir í kringum 200.000 evrur (um 25 milljónir kr).“  

Veðrið og verðlagið ráða mestu

Spurð hvers vegna Íslendingar vilji eignast fasteignir á Spáni, segir hún veðrið ráða þar mestu. „Það er fyrst og fremst veðurfarið og verðlagið. Auðvitað vilja margir líka spila golf, en það er kannski ekki aðalástæðan. Hún er sú að komast úr dimmunni og veðrinu.“

Nokkuð algengt er að Bretar á eftirlaunaaldri flytjist búferlum til Spánar í ellinni. Steinunn segir svo hins vegar ekki vera um þá Íslendinga sem kaupa sér fasteign á Spáni. „Þetta er mest keypt til sumardvalar eða fyrir þá sem ætla að dvelja þar í næstu framtíð yfir vetrarmánuðina, en það eru fáir sem eru kaupa hús til að flytja út,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK