Flugfélagið Singapore Airlines mun í haust hefja áætlunarflug að nýju frá Singapúr til New York. Flugið tekur tæpar nítján klukkustundir og er um lengstu flugleið sem um getur hingað til að ræða. Aðeins verður boðið upp á flugsæti í dýrari kantinum og er flugið því hugsað fyrir efnameiri farþega.
Flogið verður daglega á milli Changi í Singapúr til Newark-flugvallar í New York. Um 16.700 kílómetra leið er að ræða og mun flugið taka 18 klukkustundir og 45 mínútur að því er fram kemur í tilkynningu flugfélagsins í dag.
Lengsta flugleið sem nú er flogin í heiminum er frá Auckland á Nýja-Sjálandi til Doha í Katar. Það er flugfélagið Qatar Airways sem býður upp á það og tekur flugið sautján klukkustundir og fjörutíu mínútur.
Til flugsins milli Singapúr og New York mun Singapore Airlines nota þotu af gerðinni Airbus A350-900ULR. Um borð er pláss fyrir 161 farþega, 67 á viðskiptafarrými og 94 á því sem kallast premium-farrými.
Flugfélagið flaug svipaða leið á árunum 2004 til 2013 en hætti því í kjölfar fjárhaglegra þrenginga.
Singapore Airlines segir einnig standa til að hefja beint flug frá Singapúr til Los Angeles.
Rætt hefur verið um að svo löng flug sem þessi geti ógnað öryggi um borð, aðallega gagnvart áhöfninni. Breska verkalýðsfélagið Unite sakaði Qantas-flugfélagið á dögunum um að hafa reynt að þagga niður í fólki úr áhöfn sem vildi ræða áhyggjur sínar vegna heilsufarsvandamála og þreytu í tengslum við flug milli Perth í Ástralíu og London. Það flug er sautján klukkustunda og tuttugu mínútna langt.