Actavis er eitt þeirra lyfjafyrirtækja sem bandarísk sveitarfélög og borgir hafa höfðað mál gegn vegna ofskömmtunar á ópíóíðalyfjum. Má þar nefna New York borg auk smærri sveitarfélaga sem telja lyfjafyrirtækin bera ábyrgð á ótímabærum dauðsföllum og kostnaði vegna ópíóíða-faraldurins
Í kvörtun sem lögð var fram af hálfu St. Martin í Louisiana í síðustu viku sakar sveitarfélagið lyfjafyrirtækin um að hafa áratugum saman brotið lög alríkisins sem og ríkisins með sölu á verkjalyfjum þrátt fyrir að vita af hættunni á ávanabindingu þeirra. Lyfjafyrirtækin hafi orðið uppvís af því að birta falsaðar fréttatilkynningar varðandi hættuna og ávinning af notkun lyfjanna með því að markaðssetja ópíóíða sína beint til lækna og sjúklinga í Louisiana.
Sveitarfélagið heldur því fram að lyfjafyrirtækin hafi greitt læknum fyrir að starfa sem ráðgjafar þeirra og að hafa fjármagnað samtök (front group) sem mæltu með notkun ópíóíða í meðferðarskyni.
Lyfjafyrirtækin hafi jafnvel fengið lækna og aðra til þess að skrifa upp á frekari notkun ópíóíða þrátt fyrir að viðkomandi sjúklingur bæri merki um að vera orðinn háður verkjalyfinu.
Farið er fram á að lyfjafyrirtækin greiði læknis- og meðferðarkostnað þeirra sem glíma við fíkn í lyfseðilsskyld lyf. Auk þess að farið er fram á að þau greiði kostnað tengdum því þegar börn fæðast með ópíóíðafíkn og fatlanir sem rekja má til notkunar á ópíóíðum á meðgöngu.
New York borg fer fram á að fá greiddan hálfan milljarð Bandaríkjadala frá fyrirtækjunum vegna kostnaðar sem borgin þarf að greiða vegna ópíóíðana. Má þar nefna að árið 2016 létust yfir eitt þúsund íbúar New York vegna ofskömmtunar á ópíóíðum. Fleiri létust árið 2017 úr ofskömmtun á ópíóíðum í borginni heldur en í umferðarslysum og morðum samanlagt.