Katrín Tanja Davíðsdóttir afrekskona í Crossfit er tekjuhæsti íþróttamaður landsins ef marka má tekjublað DV fyrir árið 2017. Tekjur hennar námu 4 milljónum króna á mánuði. Hafþór Júlíus Björnsson aflraunamaður er í öðru sæti listans með 2,6 milljónir króna.
Gunnar Nelson bardagakappi er í því þriðja með 1,6 milljónir á mánuði. Guðni Bergsson formaður KSÍ og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari eru með svipaðar tekjur á mánuði eða um 1,2 milljónir króna.
Arnór Guðjónsen, umboðsmaður og fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, rekur hins vegar lestina með 33 þúsund á mánuði í tekjur.
Tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn er Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, með 5,9 milljónir króna á mánuði og Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs, er með 4,5 milljónir króna á mánuði í tekjur.
Björn Ingi Hrafnsson, fjárfestir, er í þriðja sæti listans yfir tekjuhæstu fjölmiðlamennina með 2,6 milljónir á mánuði og Óskar Magnússon, rithöfundur og fyrrverandi útgefandi Árvakurs, er með 1,9 milljónir króna í tekjur á mánuði.
Brynja Þorgeirsdóttir sjónvarpskona er neðst á lista fjölmiðlafólks með 21 þúsund á mánuði en Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, er með 59 þúsund krónur og Freyr Eyjólfsson, útvarps- og tónlistarmaður er með 61 þúsund á mánuði.
Sá fyrirvari er á þessum tölum að tekjukannanir sem þessar byggjast á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám ríkisskattstjóra. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur eða þá að útsvarsskyldar tekjur einstaklinga endurspegli ekki föst laun viðkomandi.