Skiptum á þrotabúi AN Holding er lokið en félagið var í eigu Pennans og tengdist útrás fyrirtækisins. Niðurstaðan var sú að engar eignir fengust upp í lýstar kröfur sem námu rúmum þremur milljörðum.
Greint er frá skiptalokunum í Lögbirtingarblaðinu en þar kemur fram að lýstar kröfur hafi verið tæplega 3,2 milljarðar króna.
Kristinn Vilbergsson og Þórður Kolbeinsson leiddu hóp fjárfesta sem keyptu Pennann árið 2005 og í kjölfarið var sótt inn á erlenda markaði. Árið 2006 festi það kaup á 73% hlut á lettneska skrifstofufyrirtækinu AN Office og sama ár keypti félagið finnska skrifstofufyrirtækið Tamore.
Penninn keypt síðan tvö önnur fyrirtæki í Lettlandi; kaffiframleiðslufyrirtækið Melna Kafija og húsgagnafyrirtækið Coppa. Í ársbyrjun 2009 störfuðu 2.500 manns í sjö löndum hjá fyrirtækinu.
AN Holding var tekið yfir af skilanefnd Sparisjóðabankans (áður Icebank). Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2016 er skráður eignarhlutur í einu dótturfélagi, SIA Aigas Holding í Lettlandi. Nafnverðið er tæplega 14 milljónir evra en bókfært verð núll.