Innflutningstollar á ýmsar vörur frá Bandaríkjunum til Evrópusambandsins munu taka gildi í júlí næstkomandi. Sambandið segir tollana svar við aðgerðum Bandaríkjanna. Þessir „jöfnunartollar“ munu ná til stáls frá Bandaríkjunum og ýmissa iðnaðar- og landbúnaðarvara. Íslensk stjórnvöld segjast fylgjast með þróun mála.
Samkvæmt Guardian er andvirði þeirra vöruflokka sem tollar Evrópusambandsins ná til um 2,8 milljarðar evra eða um 312 milljarðar íslenskra króna. Samhliða Evrópusambandinu hafa yfirvöld í Kanada og Mexíkó sagst ætla svara aðgerðum bandarískra yfirvalda.
Evrópusambandið hefur gert athugasamdir við aðgerðir Bandaríkjanna og leitað til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna þeirra tolla sem nú hafa verið settir á stál og ál, en framkvæmdastjórn sambandsins telur umrædda tolla ólöglega.
Evrópusambandið hefur lýst því yfir að það muni koma á frekari tollum, sem munu ná til vöruflokka að andvirði 3,6 milljarða evra, eða um 450 milljarða króna, hafi deilan ekki verið leyst innan þriggja ára.
„Það þarf síðan ekki að fjölyrða um skaðsemi verndartolla. Þótt tollar Bandaríkjanna verndi sum störf í Bandaríkjunum þá munu tollar ESB, Kína og Kanada eyða öðrum störfum. Heimshagkerfinu stafar ógn af ákvörðunum Bandaríkjaforseta,“ staðhæfir Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í samtali við mbl.is að viðskiptastríð séu alltaf slæm og tekur fram að ekki hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir vegna stöðu mála.
Hann segir að málið hafi verið rætt innan ríkisstjórnarinnar í mars þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fyrst lýsti áformum sínum um að leggja á toll á stál og ál. Samkvæmt Guðlaugi fylgjast íslensk stjórnvöld grannt með þróun mála með hagsmuni Íslands að leiðarljósi.