Tekist var á um formsatriði við fyrirtöku í máli Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra United Silicon, fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Sameinað sílikon ehf. höfðaði mál á hendur Magnúsi Ólafi þar sem hann er krafinn um hálfan milljarð fyrir meint auðgunarbrot og skjalafals.
Magnús hefur verið töluvert í fjölmiðlum undanfarið. Í febrúar var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hraðakstur á Tesla-bifreið sinni á Reykjanesbraut í desember 2016 og fyrir að hafa valdið umferðarslysi.
Þá lögðu lífeyrissjóðirnir fimm sem komu að fjármögnun kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík fram kæru til héraðssaksóknara í mars sl. og óskuðu eftir því að embættið taki til lögreglurannsóknar nokkur alvarleg tilvik sem grunur leikur á að feli í sér refsiverð brot af hálfu Magnúsar.