Dýrustu sekúndur Íslandssögunnar

Uppselt er á öll auglýsingahlé í hálfleik í leikjum íslenska …
Uppselt er á öll auglýsingahlé í hálfleik í leikjum íslenska landsliðsins í riðlakeppninni á HM í Rússlandi. Búist er við sögulegu áhorfi á fyrsta leikinn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sekúndan í auglýsingahléi á RÚV í leik Íslands og Argentínu á laugardaginn er sú dýrasta frá upphafi að nafnvirði. Aldrei hafa fleiri frumgerðar auglýsingar verið framleiddar fyrir einn viðburð.

Einar Logi Vignisson, auglýsingastjóri RÚV, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að verðið á hverri sekúndu í auglýsingatímum í kringum leik Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í fótbolta á laugardaginn sé 18.000 krónur, og sé það hæsta frá upphafi að nafnvirði. Það sé þó svipað verð og hafi verið á auglýsingatímum annarra stórviðburða í sjónvarpi, eins og úrslitum Söngvakeppninnar, Evróvisjón og Áramótaskaupsins. Til samanburðar kostaði hver sekúnda í auglýsingatímanum á undan Skaupinu 2017 frá 15.000 til 16.500 krónum, allt eftir staðsetningu í auglýsingatímanum.

Miðað við þetta verð myndi ein birting á nýrri 100 sekúndna HM auglýsingu Coca-Cola á Íslandi kosta 1,8 milljónir króna. „Það sem er áhugavert fyrir þetta mót núna er að það hafa aldrei jafn margir aðilar frumgert langar sjónvarpsauglýsingar fyrir nokkurn sjónvarpsviðburð,“ segir Einar Logi, en á móti komi að minna sé af styttri auglýsingum.

Hann segir að auglýsingamagnið í umferð í heild sé þó ekkert óskaplega mikið. „Þó að fyrirtækin búi til langar og dýrar auglýsingar er ekki endilega verið að birta þær mjög oft.“

Aðspurður segir hann að enn sé nægt framboð á auglýsingatímum á HM og allir ættu því að geta komið sínum skilaboðum til þjóðarinnar. Auglýsingatímar í hálfleik í leikjum Íslands eru þar þó undanskildir. Þeir eru uppseldir, að sögn Einars.

„Þeir sem eru að panta auglýsingar í mótið hafa forpantað …
„Þeir sem eru að panta auglýsingar í mótið hafa forpantað alla leið. Það vill enginn missa af því tækifæri.“ mbl.is/Eggert

Lærðu af EM 2016

Annað sem er nýtt núna miðað við önnur stórmót í fótbolta, að sögn Einars, er að nú hverfist allt um lið Íslands. „Menn eru nánast ekkert að spá í aðra leiki, eins og leiki enska landsliðsins, sem oft er mikil eftirspurn eftir. Öll athyglin er á leiki Íslands og svo aðra leiki í riðlinum sem Ísland leikur í.“

Einar segir að auglýsendur hafi lært af Evrópukeppninni í knattspyrnu árið 2016 þegar karlalandsliðið náði góðum árangri. „Þá voru vissulega gerðar frumgerðar auglýsingar en menn voru ekki jafn viðbúnir og nú er. Menn sáu ekki fyrir hvað það varð mikið æði í kringum þetta hjá þjóðinni, og gerðu ekki ráð fyrir því í sínum áætlunum. Nú vita menn hvaða áhrif EM 2016 hafði, og það sést í allri auglýsingagerð. Flestir byrjuðu að leggja línurnar fyrir síðustu áramót, eða um leið og ljóst var að liðið væri komið á HM.“

Einar segir að auglýsingarnar núna séu líka fjölbreyttari en þá var. „Það eru ekki allir að afrita þessar tilfinningaþrungnu auglýsingar sem hverfðust um landsliðið. Menn eru sjálfstæðari, og ekki bara að elta stóru auglýsendurna, eins og var áberandi fyrir tveimur árum.“

Einar segir að margir auglýsendur hyggist frumsýna frumgerðar auglýsingar í kringum Ísland-Argentínu leikinn.

142 milljarða áhrif í Englandi

Einar bendir á innspýtinguna sem stórmót eins og HM er fyrir hagkerfið. „Í Bretlandi reiknuðu menn út að samanlögð hagræn áhrif konunglega brúðkaupsins á dögunum, HM í fótbolta og veðursins í Bretlandi væru áætluð einn milljarður sterlingspunda, eða jafnvirði 142 milljarða íslenskra króna. Allt sem lyftir fólki upp og örvar það hefur áhrif á kauphegðunina.“

Meiri sala á gosi, snakki, bjór, grillkjöti, sjónvörpum og sófum er dæmi þar um að hans sögn.

Spurður að því hvort auglýsendur hafi gert ráð fyrir þeim möguleika að Ísland komist áfram í 16 liða úrslit og undanúrslit segir Einar svo vera. „Já, þeir sem eru að panta auglýsingar í mótið hafa forpantað alla leið. Það vill enginn missa af því tækifæri.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK