„Þetta er mjög jákvætt skref, að það sé verið að leggja upp í að taka á þessum vanda,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um nýsamþykkt átak ríkisstjórnarinnar sem snýr að hertu eftirliti með heimagistingu. Stjórn samtakanna sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem þau fagna aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
„Það eru ekki nema um þúsund skráðir aðilar með leyfi en það eru um sex þúsund á landinu í heild sem stunda þessa starfsemi, svo það er ljóst að það er töluvert sem þarf að vinna í þessu,“ segir Jóhannes.
Hann segir að samtökunum sé umhugað um að þeir sem vinni í ferðaþjónustu fylgi tilsettum reglum og skili sköttum og skyldum. Þannig séu aðilar innan ferðaþjónustunnar í eðlilegu rekstrarumhverfi. „Þetta er sameiginlegt áherslumál allra sem koma að þessum málum.“
Samtök ferðaþjónustunnar hafa bent á þörf fyrir aukið eftirlit með leyfisskyldri gististarfsemi, enda telji þau ljóst að umfang ólöglegrar gististarfsemi undir merkjum Airbnb og sambærilegra deilikerfa skekki samkeppnisumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja. Þau benda á að ríkið hafi orðið af um tveimur milljörðum króna vegna ólöglegrar gististarfsemi, sem annars gætu nýst til uppbyggingar innviða í ferðaþjónustu.
„Samtökin hafa lengi bent á að það séu svona margir í þessu en aðeins fáir skráðir. Að það þurfi aðgerðir til þess að taka á málinu. Við kjósum þó að horfa frekar í framrúðuna og fagna því að þetta fari í gang núna, og við viljum gjarnan vinna með stjórnvöldum að því,“ segir Jóhannes.
„Markmiðið hlýtur að vera að þeir sem starfa í greininni starfi eftir þeim reglum sem settar eru og skili sköttum og gjöldum eins og gert er ráð fyrir. Við gerum okkur grein fyrir því að það tekur tíma og þetta er ný hugsun sem heimagistingin byggir á. Það þýðir að það þarf að fylgjast með þróun í regluverki í kring um þessa starfsemi í nágrannaþjóðunum, hvernig aðrir eru að taka á þessu. Og að reyna að finna skynsamlegar leiðir til þess að þetta geti blómstrað innan regluverksins eins og önnur gisting.“