Hefur stuðlað að nýsköpun í ferðamennsku

Hjalti Baldursson, framkvæmdastjóri Bókunar.
Hjalti Baldursson, framkvæmdastjóri Bókunar. mbl.is/Eggert

Hugbúnaðarfyrirtækið Bókun hyggst meira en tvöfalda starfsmannafjölda sinn nú í sumar í kjölfar þess að það var selt í apríl til TripAdvisor, stærsta söluaðila í ferðaþjónustu í heiminum. Hjalti Baldursson, framkvæmdastjóri og stofnandi, segir að fyrirtækið sé vel þekkt erlendis þó að fáir þekki það hér á landi.

Áður en Hjalti Baldursson stofnaði Bókun starfaði hann í heimi fjármála og fjárfestinga sem forstjóri fjárfestingarfélags í eigu fjölskyldu Jóns Helga Guðmundssonar, oftast kennds við BYKO.

Hjalti segir í samtali við ViðskiptaMoggann að þegar hann sá fram á að þeirri törn væri að ljúka í kringum árið 2012 hafi hann viljað horfa fram á veginn og reyna eitthvað alveg nýtt. Hann hafi verið búinn að fá sinn skerf af því að sitja á samningafundum með bankamönnum.

„Við vorum þrír vinir sem vildum búa til eitthvað nýtt, og það mátti vera í raun í hvaða geira sem var, í fiski, áli, orku eða öðru. En við duttum inn í ferðaþjónustu. Þetta var árið 2012. Til að byrja með hélt ég áfram í minni dagvinnu, en hinir tveir hættu í sínum störfum og einbeittu sér að nýja verkefninu. Úr varð netferðaskrifstofan Best of Iceland. Í grófum dráttum var þetta frekar léleg hugmynd, meðal annars vegna þess að ferðaþjónustufyrirtækin á markaðnum voru ekki með nein tölvukerfi sem hægt var að tengjast við,“ segir Hjalti.

Fyrirtækin sem Hjalti vísar þarna til voru þau sem buðu upp á ferðir og afþreyingu, dagsferðir, hestaferðir, hvalaskoðun, o.s.frv., í raun allt það sem ferðamaðurinn horfir til þegar hann er kominn á áfangastað og er að leita sér að einhverju skemmtilegu að gera og upplifa.

Þeir vinirnir brugðust við þessu með því að búa til nákvæmlega þetta kerfi sem þeim fannst vanta á markaðinn, kerfi til að auðvelda ferðaþjónustufyrirtækjunum að tengjast við söluaðila, og við hvert annað. „Þetta gerðum við á hárréttum tíma í þróun íslenskrar ferðaþjónustu. Við náðum að búa til kerfi sem að margra mati, og þar á meðal TripAdvisor, er á heimsmælikvarða. Það er víða um heim tekið eftir því hve framarlega við Íslendingar stöndum í ferðum og afþreyingu. Ferðamenn koma til landsins til að upplifa alls konar ólíka hluti, og langmest af því sem þeir bóka fer í dag í gegnum okkar kerfi.“

Hjalti sýnir blaðamanni hvernig kerfið virkar og hvað það býður upp á. Ásamt því sem fyrirtæki í ferðaþjónustu geta sett upp bókunarvél frá Bókun með auðveldum hætti inn á sínar heimasíður geta fyrirtækin vistað ljósmyndir, kort, myndbönd og margvíslegar upplýsingar, sem þau svo geta lesið inn á sínar eigin vefsíður.

Notendur uxu hraðar en allir aðrir

Fljótt kom í ljós hve mikil áhrif bókunarvélin hafði að sögn Hjalta. „Allt í einu byrjuðu þeir sem notuðu þessa bókunarvél okkar að vaxa miklu hraðar en allir hinir. Þannig fengum við inn fjölda viðskiptavina án þess að hafa sölumann á Íslandi. Við héldum svo áfram að þróa kerfið, og eftir því sem fjöldi viðskiptavina sem tók kerfið í notkun óx gáfum við þessum aðilum kost á því að velja vörur hjá hverjum öðrum og endurselja ferðir hver annars. Þannig má til dæmis sjá sömu ferðina á mörgum vefsíðum samtímis. Sama hvalaskoðunarferðin er kannski í sölu hjá Wow Air, hjá Arctic Adventures og hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu sjálfu. Kerfið okkar tryggir að það eru alltaf rauntímaupplýsingar fyrir hendi um rétt framboð, hvort til eru sæti eða ekki.“

Hjalti segir að framkvæmd þessarar krosssölu svokölluðu, þar sem fyrirtækin endurselja hvert annað, fari öll fram í gegnum kerfi Bókunar. Þar sé hægt að ganga frá samningi á einfaldan hátt, og aðilar semja um þóknanir og fleira, á örskömmum tíma, og byrja að selja nær samstundis. „Við höfum dæmi um marga aðila sem hafa á einum degi gert samninga í gegnum Bókun um að selja ferðir og afþreyingu annarra á sínum vefsíðum, og fengið inn bókanir samdægurs.“

Eitt af því sem Bókun býður upp á í gegnum kerfi sitt, og hefur reynst vel, er að ferðaþjónustuaðilar sem eru í viðskiptum við fyrirtæki geta búið til pakka. Sem dæmi getur hvalaskoðunarfyrirtæki boðið hvalaskoðun og köfun frá öðru fyrirtæki í einum pakka. Þannig er hægt að blanda saman hvaða ferðum sem er. „15% af öllum vörum sem bókaðar eru í gegnum kerfið okkar eru svona „combo“-ferðir. Þetta hefur ekkert fyrirtæki náð að gera með sama hætti og við gerum. Eftir þessu hefur verið tekið erlendis.“

Hjalti segir að ein af ástæðunum og forsendunum fyrir því að svona vel gangi að selja ferðir og afþreyingu hér á landi eins og reyndin er, og gert er í gegnum Bókun, sé sú staðreynd að á Íslandi séu allir bókanlegir á netinu. Þess vegna geti allir tekið þátt. Aðgengi að markaðnum sé auðvelt fyrir ferðaþjónustuaðilana og allt sé aðgengilegt fyrir ferðamanninn. Úrvalið af ferðum og afþreyingu sé þannig á sama tíma miklu meira en víðast hvar erlendis. „Til að fara af stað með einhverja ferðaþjónustu hér á landi er nóg að fá góða hugmynd, skrá kennitöluna inn á Bókun og byrja að selja. Þetta er algjörlega byltingarkennt. Þetta hefur stuðlað að mikilli nýsköpun í ferðamennsku. Mörg fyrirtæki hafa hreinlega orðið til af því að Bókun gerði þeim kleift að verða til.“

Hann segir að krosssalan standi fyrir stórum hluta allrar sölu í kerfinu, en einmitt sú virkni er það sem greinir kerfi Bókunar frá öðrum kerfum í heiminum. „Það að allir eru að nota eitt og sama kerfið þýðir að sýnileiki varanna er svo miklu meiri en gengur og gerist annars staðar í heiminum. Á meðan nánast allir eru á netinu á Íslandi eru kannski bara 20% af ferðaþjónustubirgjum erlendis með kerfi sem tengst getur öðrum kerfum. Þetta er ein stærsta ástæðan fyrir því að TripAdvisor keypti okkur, því þeir ætla að reyna að endurskapa árangurinn sem náðst hefur hér á landi úti um allan heim.“

Hjalti segir að sprenging hafi orðið í fjölda viðskiptavina eftir að tilkynnt var um kaup TripAdvisor á félaginu. „Við byrjuðum að fá inn fjölmarga nýja viðskiptavini á dag, án þess að breyta neinu sjálfir. Það er ótrúlegt hvað vörumerkið þeirra er sterkt,“ segir Hjalti og bendir á að TripAdvisor sé langsamlega stærsti aðilinn í heiminum í sölu á ferðum og afþreyingu, með 4-500 milljónir gesta á heimasíðu sinni í mánuði hverjum.

Hraði vinnur

Hjalti fer fögrum orðum um nýju eigendurna. Þeir hafi brugðist hratt við eftir að kaupin voru afstaðin og viðskiptavinum Bókunar fjölgaði ört. „Þeirra mottó er Speed Wins, eða Hraði sigrar. Þegar við sáum að nýskráningarnar fóru að hrúgast inn til okkar kölluðu þeir inn fólk frá Bretlandi, Boston og San Francisco, með það að markmiði að mæta álaginu. Innan mánaðar vorum við búin að byggja upp teymi í Oxford, Boston, Singapore og Las Vegas. Ég hef aldrei séð svona mikla skilvirkni í jafn stóru fyrirtæki og þeir eru.“

Eins og sagði hér á undan eru flestöll íslensk fyrirtæki sem selja ferðir og afþreyingu í viðskiptum við Bókun, en einnig eru fjöldamörg erlend fyrirtæki einnig í viðskiptum við fyrirtækið, enda segir Hjalti að það sé orðið vel þekkt um víða veröld. „Auk TripAdvisor erum við í viðskiptum við marga af stærstu endursöluaðilum í heiminum í þessum bransa. Þannig erum við með Expedia, sem margir þekkja, og einnig stærstu „Hop On – Hop Off“ rútuferðafyrirtækin í heiminum. Þau nota Bókun fyrir allar bókanir sinna endursöluaðila um allan heim. Sem dæmi myndi ferðaskrifstofa í Indlandi sem vill selja rútuferð í Bretlandi gera það í gegnum Bókun. Við erum stórir á Íslandi, með mörg af stærstu fyrirtækjum í heimi einnig í viðskiptum, og nú með hjálp TripAdvisor ætlum við að fjölga til muna þessum minni aðilum um allan heim.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK