Meirihluti stjórnar HB Granda hf. ákvað á fundi í dag að ganga til samninga við Vilhjálm Vilhjálmsson forstjóra um starfslok hans hjá félaginu en hann hefur setið í forstjórastólnum frá árinu 2012. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HB Granda til Kauphallarinnar.
Á sama fundi ákvað stjórn að ráða Guðmund Kristjánsson, núverandi stjórnarformann félagsins, sem forstjóra. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum á ný og var Magnús Gústafsson kjörinn nýr stjórnarformaður.
Greint var frá því í apríl að Guðmundur hefði keypt 34,1% eignarhlut í HB Granda af Kristjáni Loftssyni og Halldóri Teitssyni. Í lögum um verðbréfaviðskipti er kveðið á um yfirtökuskyldu hafi hluthafi eignast yfir 30% eignarhlut í fyrirtæki á hlutabréfamarkaði og hefur Guðmundur þegar gert öðrum hluthöfum tilboð.