Keahótel ehf. hefur gengið frá kaupum á Hótel Kötlu við Vík í Mýrdal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keahótelum. Hótelið verður áfram rekið undir sama nafni og mun reksturinn að mestu leyti haldast óbreyttur. Kaupin eru frágengin og er kaupverðið trúnaðarmál.
Hótel Katla er þriggja stjörnu heilsárshótel með 103 herbergjum ásamt veitingastað sem tekur allt að 200 manns í sæti. Hótelið stendur í landi Höfðabrekku sem er í fimm kílómetra fjarlægð frá Vík í Mýrdal. Landið hefur verið vinsælt sögusvið í ótal kvikmyndaverkefnum og sjónvarpsþáttum, svo sem Game of Thrones og Hrafninn flýgur.
Hótel Katla verður tíunda hótelið sem rekið verður undir merkjum Keahótela, en fyrir rekur það sex hótel í Reykjavík og þrjú á Norðurlandi með samtals 794 herbergjum.