Reykjavíkurborg hefur samið við nýjan rekstraraðila á 210 strætóskýlum í borginni til 15 ára. Þetta staðfestir Vésteinn Gauti Hauksson, framkvæmdastjóri Billboards ehf., móðurfélags Dengsa ehf. sem kemur til með að reka biðskýlin.
Vésteinn segir að undirbúningur fyrir uppsetninguna sé kominn á fullt enda þurfi að huga að mörgu, svo sem rafmagni í öll skýlin þar sem í 50 skýlum verða rauntímaupplýsingar um næstu strætisvagna auk þess sem Led-auglýsingaskjáir verða í öllum skýlunum.
„Við erum að fjölga skýlum frá því sem verið hefur,“ segir Vésteinn en þeim verður fjölgað úr 147 upp í 210. „Og við erum að stækka þjónustuna og fjölga skýlum í Árbæ, Grafarvogi og Breiðholti þar sem hafa verið fá skýli.“