Enn er stefnt að því að reisa sólarkísilver hér á landi. Sunnuvellir, sem stofnað var í kringum fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða og fjárfesta í uppbyggingu á sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga, nýttu söluréttarákvæði til að tryggja rétt sinn gagnvart bandaríska móðurfélaginu.
Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir að Ómar Örn Tryggvason, stjórnarformaður Sunnuvalla, telji fjárfestinguna ekki tapað fé þó að fallið hafi verið frá áformum um sólarkísilver á Grundartanga á sínum tíma.
Síðasta haust féll Silicor Materials frá samningum við Faxaflóahafnir um lóð og hafnaraðstöðu á Grundartanga. Þá sagði Michael Russo, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Morgunblaðið að ákveðið hafi verið að hægja á undirbúningnum og að fjármögnun verkefnisins hefði verið tekin til endurskoðunar.
„Við þurftum að taka eitt eða tvö skref til baka og endurmeta stöðuna en við höfum fullan hug á að halda verkefninu áfram, því hefur ekki verið hætt,“ segir Russo um fjármögnunina í Morgunblaðinu í dag, en erfiðara reyndist að fjármagna verkefnið en Silicor Materials taldi í fyrstu.