Slefandi aðdáendur um allan heim

Cédric Grolet.
Cédric Grolet. AFP

Þegar Cédric Grolet mundar sætabrauðshnífinn slefa milljónir aðdáenda hans enda var hann valinn helsti kökugerðarmaður heims nýverið. Le Monde lýsir kökum Grolet, sem er stjarna á samfélagsmiðlum, sem matarklámi en aðeins örfáum gefst kostur á að gæða sér á lystisemdunum.

Facebook-síða Cédric Grolet

Myndskeið af Grolet skera undurfagra gervi ávexti sem hann skapar af sinni alkunnu snilld njóta gríðarlegra vinsælda og samkvæmt AFP og Le Monde eru milljónir sem horfa á þau á samfélagsmiðlum. Milljónir til viðbótar fletta í gegnum myndir af gervi ávöxtum, svo sem perum, apríkósum, sítrónum, ferskjum og jafnvel tómötum. Jafnvel Vouge, sem ekki er þekkt fyrir að mæla með hitaeiningaríkum eftirréttum, segir að myndirnar fái fólk til þess að vilja sleikja skjáinn.

„Aðdáendur hans gráta, falla í fang hans og krefjast eigináhaldaritunar og sjálfu með goðinu,“ segir í Le Monde en ekki er þekkt fyrir ástríðufullar lýsingar. 

Golet opnaði litla verslun með afurðir sínar á Le Meurice í París fyrr á árinu. Þar eru hillurnar oftast orðnar tómar klukkutíma eftir opnun að morgni. Rubik-tenings kakan hans er dýrkuð af mörgum og virðist ekki sem það skipti fólk máli að eitt stykki, sem nægir fyrir sex, kosti 170 evrur, 21 þúsund krónur.

Að sjálfsögðu hefur Grolet útbúið sérstakar HM-kökur til að fagna heimsmeistaratitli Frakka. Þær eru í frönsku fánalitunum, bláar, hvítar og rauðar. En líkt og svo margir í franska landsliðinu þá fæddist Grolet ekki með silfurskeið í munni.

Cédric Grolet er fæddur í smábæ skammt frá Saint-Étienne þar sem mamma hans starfaði við hárgreiðslu og pabbi hans var vörubílstjóri. Þegar hann var 13 ára fékk Grolet hugljómun og ævistarfið blasti við.

Instagram-síða Cédric Grolet

„Bóndi gaf mér körfu með jarðarberjum fyrir að hafa aðstoðað hann við að tína ber. Ég bjó til jarðarberjaköku úr þeim fyrir afa minn,“ segir Grolet í samtali við AFP en afi hans rak gistiheimili þar rétt hjá. 

Kakan varð svo vinsæl að Grolet hætti í skólanum skömmu síðar og réð sig til bakara þorpsins. 

„Ég var að baka brauð öll kvöld svo ég mætti búa til eftirrétti klukkan 11 á morgnana. Umbunin var að fá að skera eplin og skreyta kökurnar með jarðarberjum.“

Hann nam síðar kökugerð og var byrjaður að sópa að sér verðlaunum áður en hann hélt að heiman tvítugur að aldri. Leiðin lá til höfuðborgarinnar, Parísar. Þar starfaði hann fyrir matvælakeðjuna Fauchon og fór til Peking á þeirra vegum þar sem hann þjálfaði starfsfólk Fauchon sem þar starfaði.

Grolet fylgdi yfirmanni sínum þaðan til Le Meurice, sem er í eigu soldánsins af Brunei. Þar stýrir hann kökugerðinni undir styrkri stjórn eins þekktasta matreiðslumanns heims, Alain Ducasse.

Undanfarin sex ár hefur hann einbeitt sér að kökum sem líta út eins og ávextir þrátt fyrir að hitaeiningarnar séu heldur fleiri en í ávöxtunum þá stöðvar það ekki þá sem eiga djúpa vasa í að standa í biðröð til að fá að njóta þeirra forréttinda - að bragða á undaðsendum kökugerðarmannsins þekkta.

Cédric Grolet.
Cédric Grolet. AFP

Grolet er með yfir milljón fylgjendur á Instagram og til þess að standa sig í stykkinu sem samfélagsmiðlastjarna sleppir hann varla snjallsímanum. „Það er eitt að búa til kökur. Annað er að vita hvernig þú átt að eiga í samskiptum. Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu margar myndir ég tek áður en ég birti eina,“ segir hann.

Síðan er hann í stöðugum samskiptum við tilraunaeldhús sitt á Le Meurice og nýtir samskiptaforritið WhatsApp til þess. Skiptir þar engu hvort hann er um borð í flugvél eða annars staðar, stöðugt að teikna og skapa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK