Hundraða milljóna breytingar standa nú yfir á atvinnuhúsnæðinu Lynghálsi 4 í Reykjavík, en síðar á árinu mun verkfræðistofan EFLA flytja alla sína starfsemi í húsið. Eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrr í sumar þurfti EFLA að finna sér nýtt húsnæði, eftir að rakaskemmdir og mygla greindust í núverandi húsnæði á Höfðabakka 9. Um 300 manns vinna hjá EFLU.
Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar, segir að EFLA taki um 80% af húsnæðinu í leigu til 15 ára, en hreinsað var út úr öllu húsinu og það endurhannað miðað við þarfir verkfræðistofunnar, sem meðal annars mun verða með rannsóknarstofur sínar á neðstu hæð, að sögn Péturs. Heildarfermetrafjöldi hússins er nú 8.000 fermetrar eftir breytingarnar.
Eins og sjá má þegar húsið er skoðað að utan hefur það fengið talsverða andlitslyftingu. Þar munar mest um annars vegar 500 fermetra viðbyggingu með stórum og björtum gluggum á fimmtu hæðinni, þeirri efstu, þar sem útsýni er glæsilegt til allra átta, og hins vegar þriggja hæða viðbyggingu við húsið í portinu á bakvið húsið. Alls nemur stækkunin um 3.000 fermetrum. EFLA verður einnig með hluta af viðbyggingunni í portinu í leigu, en enn er óráðstafað fyrstu hæð og hluta af annarri hæð nýbyggingarinnar. Hönnuður breytinganna er PKdM Arkitektar, en sú stofa teiknaði húsið upphaflega á sínum tíma.
Spurður um frekari tækifæri á „hálsunum“ vildi Pétur ekki nefna neitt eitt, en sagði að alltaf væri eitthvað í bígerð, eins og hann orðaði það. „Hálsahverfið er mjög öflugt og gott svæði. Þarna er mikið af stórum og góðum fyrirtækjum, og þetta er gott svæði til að vera með hús á.“
Pétur segir aðspurður eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði sé almennt góð. „Fyrirtæki eru með svo misjafnar þarfir. Menn leita t.d. að mismikilli lofthæð, margir leita eftir auknum sýnileika o.fl.“
Greinin í heild birtist í Morgunblaðinu.