Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað kaup N1 hf. á Festi hf., en samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
„Með skilyrðunum skuldbinda samrunaaðilar sig til aðgerða sem miða að því að efla og vernda virka samkeppni á eldsneytis- og dagvörumörkuðum og bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.
Fram kemur að N1 skuldbindi sig m.a. til þess að selja eldsneytisstöðvar til nýs keppinautar, selja dagvöruverslun Kjarval á Hellu, auka aðgengi endurseljenda að birgðarými, dreifingu og eldsneyti í heildsölu og tryggja samkeppnislegt sjálfstæði félagsins.
Um er að ræða víðtækari aðgerðir af hálfu N1 en áður hafa verið kynntar við meðferð málsins.
Sátt samrunaaðila felur í sér að eldsneytisstöðvar sem reknar hafa verið undir vörumerki Dælunnar við Fellsmúla í Reykjavík, Hæðarsmára í Kópavogi og Staldrið í Reykjavík verða seldar, auk bensínstöðva N1 við Salaveg í Kópavogi og Holtagarða í Reykjavík. Þetta skal selt til „nýrra óháðra aðila á eldsneytismarkaði“ í einu lagi.
Sá aðili verður því að kaupa allar stöðvarnar sem eru til sölu, vera óháður og ekki í eignatengslum við N1 eða aðra keppninauta á eldsneytismarkaði og „búa yfir nægjanlegri þekkingu, fjárhagsstyrk og hvata til þess að líklegt sé að hann geti til bæði skemmri og lengri tíma veitt keppinautum umtalsvert samkeppnislegt aðhald,“ eins og segir í sáttinni.