Tap Icelandair á öðrum ársfjórðungi nam um 2,7 milljörðum króna, samkvæmt uppgjörstilkynningu félagsins sem var gerð opinber eftir lokun markaða í dag.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segir í fréttatilkynningu að afkoman hafi verið lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, en yfirskrift tilkynningarinnar frá flugfélaginu er „Krefjandi árferði“.
„Spár okkar um hækkandi meðalverð á síðari hluta ársins hafa hingað til ekki gengið eftir. Þetta gerist þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað mikið. Samkeppnin á mörkuðum hefur sjaldan verið meiri sem kemur fram með þessum hætti. Við gerum áfram ráð fyrir að til lengri tíma muni hækkun aðfanga leiða til hækkunar meðalverðs,“ segir Björgólfur.
Hann segir aðstæður í rekstri flugfélaga „vissulega krefjandi um þessar mundir,“ en jafnframt að Icelandair Group sé í góðri stöðu til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri sem upp kunna að koma við slíkar aðstæður.
„Við höfum undanfarið unnið að viðamiklum breytingum á félaginu sem munu skila sér í enn sterkara fyrirtæki til framtíðar. Þar hefur allt verið til skoðunar, meðal annars skipulag, stefna, leiðakerfi, flotauppbygging, fargjaldaflokkar og á hvaða sviðum félagið ætlar að starfa til framtíðar,“ segir Björgólfur og minnist á að Icelandair hafi hafið ferli sem miðar að því að selja hótelrekstur félagsins.
Þá segir hann að í skoðun sé uppbygging nýs tengibanka á Íslandi meðfram núverandi tengibanka, auk þess sem nýjar Boeing MAX-vélar hafi komið í flotann fyrr á árinu.
„Þá hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi félagsins. Markmiðið er að skerpa enn frekar á áherslum okkar i sölu og markaðsmálum annars vegar og þjónustu við viðskiptavini hins vegar og styrkja þannig félagið,“ segir Björgólfur.