Bandaríska tæknifyrirtækið Apple varð í dag fyrsta fyrirtækið í heiminum sem er skráð á almennan hlutabréfamarkað sem er metið á yfir eina billjón Bandaríkjadala (e. trillion dollars). Ein billjón samsvarar milljón milljónum.
Apple náði þessum áfanga í viðskiptum í kauphöllinni í New York í Bandaríkjunum í dag þegar verð á hlutabréfum fór yfir 207 dali á hlut. Þetta kemur fram á vef BBC.
Hlutabréfaverðið hefur hækkað um 9% frá því á þriðjudag þegar fyritækið greindi frá afkomu sinni á öðrum ársfjórðungi, sem var betri en menn höfðu búist við.
Verð á hlutabréfum í Apple hefur hækkað um yfir 50.000% frá því fyrirtækið var skráð á markað í fyrsta sinn árið 1980. Á sama tímabili hefur bandaríska S&P-hlutabréfavísitalan aðeins hækkað um 2.000%.