Markaðurinn efast um afkomuspá Icelandair

mbl.is/Jón Pétur

Icelandair Group greindi í fyrradag frá 2,7 milljarða króna tapi á öðrum ársfjórðungi og í kjölfarið féll gengi hlutabréfa félagsins um tæp 10% í Kauphöllinni í gær. Gengi félagsins hefur ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2013 og stendur nú í 7,85 krónum á hlut. Allt bendir til þess að markaðurinn hafi ekki trú á að fyrirtækið muni ná afkomumarkmiðum sínum.

EBITDA-spá Icelandair gerir ráð fyrir rekstrarhagnaði upp á 120-140 milljónir bandaríkjadala fyrir árið. Ýmislegt þarf að ganga upp svo sú spá geti ræst og miðað við viðbrögð markaðarins eru töluverðar efasemdir varðandi það.

Þróun hlutabréfaverðs frá ársbyrjun 2013.
Þróun hlutabréfaverðs frá ársbyrjun 2013. Graf/mbl.is

„Þó svo að Icelandair hafi sent frá sér neikvæða afkomuviðvörun fyrr í þessum mánuði þá olli uppgjör félagsins vonbrigðum,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arionbanka.

„Um leið hafa skapast talsverðar efasemdir um að félagið muni standast áætlun ársins. Til að áætlun standist þarf þriðji ársfjórðungur, sem nú stendur yfir, að reynast jafngóður eða betri en sami fjórðungur fyrir ári. Miðað við afkomuna það sem af er ári og ytri skilyrði skil ég vel að markaðurinn efist um að það gangi eftir.“

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Landsbankans, segir stjórnendur enn þá bratta hvað varðar spá sína fyrir árið. „Hún er reyndar frekar víð og bilið stórt. Kannski hefur markaðurinn hugsað sér að það væri möguleiki að ná þessum efri mörkum en telur kannski eftir þetta uppgjör að fyrirtækið verði frekar nær neðri mörkunum,“ segir hann.

Langtímamarkmið félagsins er að EBIT-kennitalan (hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og skatta) verði að meðaltali yfir 7% frá 2019 en hún var neikvæð um 17,8% á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Sveinn telur að EBIT-hlutfallið verði við núllið og jafnvel í mínus á þessu ári og efast um að þessi markmið félagsins náist. „Ef við horfum eitt til þrjú ár fram í tímann finnst manni það afsakplega ólíklegt, þó það sé ekki útilokað. Það þarf allt að ganga upp. Flugfargjöld þyrftu að hækka, krónan þyrfti að veikjast, allar sparnaðaraðgerðir sem félagið er í þyrftu að nást og allar launahækkanir þurfa að vera mjög hóflegar,“ segir Sveinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptamogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK