Elon Musk, forstjóri Tesla Motors, á í viðræðum við fjárfesta um mögulega aðkomu sádiarabísks fjárfestingarsjóðs og annarra fjárfesta að fyrirtækinu til þess að hægt sé að taka það af markaði. Frá þessu greindi Elon Musk í bloggfærslu í dag, en hann ýjaði að því á Twitter-síðu sinni í síðustu viku að hann ætlaði að reyna að taka félagið af markaði.
„Ég mun halda viðræðunum við Sádi-sjóðinn áfram,“ skrifaði Musk. „En ég á sömuleiðis í viðræðum við aðra fjárfesta. Það var alltaf ætlunin því ég vil að áfram standi breiður hópur að baki Tesla.“
Líkt og kom fram í frétt mbl.is á laugardag ætla óánægðir fjárfestar í mál við Musk vegna ummæla hans um að hann væri að íhuga að taka fyrirtækið af markaði. Eftir Twitter-færsluna rauk hlutabréfaverð upp í félaginu um 11 prósent. Skortsalar segja að Musk hafi afvegaleitt markaðinn.
Í bloggfærslunni segir Musk það stórlega ýkt að safna þurfi 70 milljörðum Bandaríkjadala til að taka Tesla af markaði. Segir hann að ummæli hans um að kaupa þurfi núverandi hluthafa á 420 dölum á hlut aðeins eiga við um þá hluthafa sem verði ekki áfram í fyrirtækinu eftir að það væri tekið af markaði. „Ég áætla að tveir þriðju af öllu hlutafé yrðu áfram í félaginu ef það yrði tekið af markaði.“