Hlutabréf í Atlantia, sem rekur A10-hraðbrautina þar sem brúin hrundi í nágrenni Genúa á Norður-Ítalíu, hafa lækkað um 24% í dag. Lokað var fyrir viðskipti með félagið í klukkustund í morgun. Þegar viðskipti hófust að nýju hrundu þau bókstaflega í verði.
Helsta eign Atlantia er Autostrade per l'Italia, sem rekur A10-hraðbrautina. Að minnsta kosti 39 létust eftir að hluti brúarinnar hrundi í fyrradag.
Slysið varð þegar hellirigning var í borginni og er m.a. verið að rannsaka hvort eldingar hafi orsakað hrun brúarinnar.
Um 280 metra langur hluti úr dalbrúnni féll um 45 metra á byggingar og lestarteina þar fyrir neðan, og féll fjöldi bíla og fólks með.
Brúin er kennd við verkfræðinginn Riccardo Morandi sem lést árið 1989 en hefur á síðustu árum sætt gagnrýni, m.a. vegna merkja um vandamál í brúm eftir hann. Á þriðjudag lækkuðu hlutabréf félagsins um 5,4% en kauphöllin í Mílanó var lokuð í gær vegna almenns frídags á Ítalíu.
Ítölsk stjórnvöld íhuga að afturkalla rekstrarleyfi Autostrade á hraðbrautinni. Aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio, sagði í gær að hægt hefði verið að afstýra slysinu og ljóst væri að ábyrgðin væri Autostrade per l'Italia. Yfirvöld munu sekta fyrirtækið um 150 milljónir evra og jafnvel afturkalla sérleyfi þess.