Hlutabréf í Icelandair hækka áfram

Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað nokkuð í vikunni eftir að hafa …
Hlutabréfaverð Icelandair hefur hækkað nokkuð í vikunni eftir að hafa lækkað mikið það sem af var ári. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hlutabréf í Icelandair hafa hækkað um 15,3% síðan í byrjun vikunnar og stendur gengi bréfanna nú í 9,28. Við upphaf vikunnar var það um 8 krónur á hlut. Verð bréfanna er þó enn nokkuð frá því sem það var fyrr í sumar, en í júní fór verðið hæst í 13,34 krónur á hlut. Í júlí, í kjölfar afkomuviðvörunnar lækkað verðið skarpt og hélt áfram að lækka þar til í byrjun þessa mánaðar þegar það tók að stíga hægt.

Í kjölfar frétta um fjárhagsstöðu helsta samkeppnisaðila Icelandair, WOW air, síðustu daga hefur verð bréfa Icelandair hins vegar tekið að hækka á ný.

Við lokun markaða fyrir helgi var gengi bréfanna 7,99 krónur á hlut og í fyrstu viðskiptum á mánudaginn var gengið 8,05 krónur á hlut. Þann dag fór verðið upp í 8,24 krónur á hlut (2,4% hækkun) og á þriðjudaginn hækkaði gengi bréfanna upp í 8,53 krónur á hlut (3,3% hækkun).

Í gær fluttu fjölmiðlar svo fréttir af því að WOW air væri að leita að allt að 12 milljarða króna fjármögnun með skuldabréfaútgáfu. Þá voru birtar upplýsingar úr fjárfestakynningu, en þar kom meðal annars fram að gert væri ráð fyrir um 3 milljarða króna rekstrartapi á þessu ári. Samkvæmt kynningunni var hins vegar áætlað að rekstrarhagnaður næsta árs muni nema um 4,7 milljörðum.

Við þessar fréttir hækkuðu bréf í Icelandair upp í 8,81 krónu á hlut, eða um 4,4%. Það sem af er degi hafa bréf í Icelandair hækkað um 5,33% í 358 milljón króna viðskiptum.

Samtals nemur hækkun Icelandair síðan við opnun markaða í vikunni um 15,3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK