Samtök ferðaþjónustunnar telja að vægi ferðaþjónustu á íslenskum vinnumarkaði kunni að vera verulega ofmetið í fyrri áætlunum. Þetta má lesa úr greiningu Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem byggir á nýjum ferðaþjónustureikningum Hagstofu Íslands.
Áður var áætlað að 13,3% launþega á Íslandi hefðu starfað í ferðaþjónustu í fyrra. Samkvæmt greiningu á nýjum ferðaþjónustureikningum Hagstofu Íslands má hins vegar gera ráð fyrir að hlutfallið 8,6% sé nær lagi. Þetta þýðir að starfsmennirnir hafi verið um 16.700 í fyrra en ekki um 25.800 eins og áður var talið.
Í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag segir Vilborg Helga Júlíusdóttir, greinandi og hagfræðingur hjá SAF, skýringuna meðal annars þá að 65% af umsvifum í einkennandi ferðaþjónustugreinum séu vegna venjubundinnar neyslu, eða neyslu ótengdri ferðamennsku.