Fasteignafélagið Reginn ætlar að virkja ákvæði í leigusamningum félagsins sem gerir félaginu kleift að hækka leiguverð á leigutaka. Heimildin kemur til vegna hækkunar fasteignaskatta en Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, greindi frá þessu á kynningarfundi árshlutauppgjörs félagsins á skrifstofu þess í Smáralind í morgun.
mbl.is hefur ítrekað reynt að ná í Helga í dag vegna yfirlýsinganna án árangurs en á fundinum sagði hann að leiguverðshækkunin yrði í kringum tvö, þrjú prósent og að ákvæðið sem heimilaði félaginu að hækka leiguverð væri í flestum samninga félagsins.
Fasteignamat eignasafns Regins hækkar um 13 prósent árið 2019. Helgi sagði á fundinum í morgun að félagið hefði hingað til ekki nýtt ákvæðið. Fasteignagjöld sem hlutfall af leigutekjum voru nokkuð stöðug, rúmlega 15 prósent allt til ársins 2016 þegar þau fóru að vaxa verulega. Fasteignagjöld sem hlutfall af leigutekjum voru tæplega 17 prósent á síðasta ári.
Reginn birti árshlutauppgjör fyrir fyrri helming ársins í gær og hefur félagið hækkað um 5,58 prósent í 375 milljóna króna viðskiptum í dag. Helgi greindi frá því að útleiguhlutfall Regins væri 97 prósent að teknu tilliti til fyrirliggjandi nýrra samninga í Smáralind.