Tyrkneska líran féll um 5% í dag í kjölfar þess að tyrkneskur dómstóll hafnaði beiðni bandaríska predikarans Andrew Brunson um að verða látinn laus, segir í frétt Reuters. Í gær hótuðu bandarísk yfirvöld að herða þvingunaraðgerðir gegn landinu sleppi tyrknesk yfirvöld Brunson úr haldi.
Dr. Marc Lanteigne sagði við mbl.is á miðvikudag deilurnar milli Bandaríkjanna og Tyrklands nú snúast aðallega um mál Brunsons, sem ásakaður er um að hvetja til uppreisnar gegn lögmætum yfirvöldum í Tyrklandi.
Tyrkneska líran hefur nú tapað um 40% af verðgildi sínu gagnvart Bandaríkjadal á þessu ári, en fjárfestar hafa flúið landið að undanförnu vegna peningamálastefnu forseta landsins, Reccep Tayyip Erdogan. Erdogan er að eigin sögn „óvinur vaxta“ og hefur viljað lækka lántöku kostnað þrátt fyrir sífellt hækkandi verðbólgu.
Gjaldmiðlavandi Tyrklands hefur skapað áhyggjur í kringum efnahagskerfi landsins í heild, sérstaklega vegna þess hversu háð Tyrkland er eldsneytisinnflutningi, viðvarandi fjárlagahalla og vegna stærðar erlendra skulda ríkissjóðs sem sagðar eru getað ógnað fjármálakerfinu.
Í samtali mbl.is við Lanteigne kom fram að Tyrkir muni horfa fram á langvarandi efnhagskrísu ef stefna beggja aðila breytist ekki og sagði hann að það hugsanlega gæti farið svo að ástandið í Tyrklandi fari að líkjast aðstæðum í Venesúela.