Leit stendur yfir að kaupanda að ríkisflugfélaginu Srilankan Airlines eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til við ráðamenn í Sri Lanka að félagið yrði endurskipulagt þar sem það hægði á hagvexti í landinu. AFP greinir frá.
„Við vonumst til þess að samningar náist á fyrsta ársfjórðungi 2019,“ hefur AFP eftir hátt settum embættismanni í landinu um aðkomu nýrra fjárfesta að félaginu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem reynt er að einkavæða flugfélagið, en í maí á þessu ári dró bandaríski fjárfestingarsjóðurinn til baka kauptilboð í 49 prósenta hlut í félaginu.
AGS veitti neyðarlán til Sri Lanka árið 2016 upp á 1,5 milljarða Bandaríkjadala og hefur eignarhald ríkisins í flugfélaginu og taprekstur þess neikvæð áhrif á efnahag landsins að mati AGS en skuldir félagsins nema tveimur milljörðum Bandaríkjadala.
Áður fyrr var félagið rekið með hagnaði en það breyttist þegar Mahinda Rajapakse, sem áður var forseti landsins, sleit samningum við Emirates árið 2008 vegna persónulegs ágreinings en ágreiningurinn var til kominn vegna þess að Emirates neitaði að sparka borgandi flugfarþegum úr flugi hjá sér til að rýma fyrir fjölskyldu Rajapakse.