Elon Musk, forstjóri og stjórnarformaður bílaframleiðandans Tesla, hefur ákveðið að fyrirtækið verði áfram skráð hlutafélag, en aðeins tvær vikur eru síðan hann tilkynnti að hann hygðist taka fyrirtækið af markaði og gera það að einkahlutafélagi. En ef marka má nýjustu yfirlýsingar hans verða hlutabréf í Tesla áfram í sölu í kauphöllinni. BBC greinir frá.
Sagðist Musk hafa rætt fyrirætlanir sínar á stjórnarfundi félagsins, en tilkynnt var um ákvörðunina að þeim fundi loknum. Frá því hann sagðist vera að íhuga breytingarnar hafa hlutabréf í Tesla fallið um 20 prósent.
Musk sagðist hafa greint stjórninni frá því að hann teldi betra að félagið yrði áfram á almennum markaði, en hann hafði þá rætt við hluthafa og stóra banka, en fengið þau viðbrögð að ekki væri skynsamlegt að breyta Tesla í einkahlutafélag.