120 ferðir á flugvöllinn á dag

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þrjú rútufyrirtæki eru með sætaferðir allan sólarhringinn til og frá flugstöð Leifs Eiríkssonar auk þess sem strætisvagnar keyra þangað á daginn. Alls eru ferðirnar 120 talsins á degi hverjum en svo virðist sem framboðið sé mun meira en eftirspurn.

Í frétt Túrista kemur fram að ástæðan fyrir auknu framboði í sætaferðum megi rekja til útboðs Isavia á rútustæðum beint fyrir framan komusal flugstöðvarinnar í fyrra.

Þar buðu Kynnisferðir og Hópbílar hæstu þóknunina fyrir aðstöðuna á meðan Gray Line, sem hefur um árabil haft á boðstólum sætaferðir út á Keflavíkurflugvöll, var með lægsta boðið.

Byrjað var að keyra samkvæmt nýja fyrirkomulaginu 1. mars síðastliðinn og þó að Gray Line hafi ekki fengið aðgang að stæðunum beint við flugstöðina hélt fyrirtækið uppteknum hætti en núna frá svokölluðu fjarstæði. Isavia hóf þá gjaldtöku á því bílastæði en hana hefur Samkeppniseftirlitið nú stöðvað.

„Hvað sem líður þeirri gjaldtöku þá er ljóst að framboðið á rútuferðum út á flugvöll er mikið og ekki virðist vera markaður fyrir þær allar. Þannig taldi Túristi farþega í rútum við Keflavíkurflugvöll seinni part dags í byrjun þessa mánaðar og áberandi var hversu fáir fóru upp í rútur Hópbíla/Airport Direct. Voru farþegarnir á bilinu 4 til 15 í hverri ferð þótt sæti væru fyrir 53 farþega.

Aðspurður hvort nýtingin í rútum fyrirtækisins hafi almennt verið svona lág þá bendir Hjörvar Sæberg Högnason, framkvæmdastjóri Airport Direct, á að fyrirtækið sé nýr aðili á þessum markaði og að það taki tíma að byggja upp viðskiptasambönd,“ segir í frétt Túrista.

Þegar Airport Direct tók við stæðunum við Leifsstöð 1. mars  kostuðu farmiðar þess 2.900 krónur á meðan stakt fargjald var á 2.950 í Flugrútuna og 2.400 krónur hjá Airport Express. Stuttu síðar hóf Airport Direct svo að bjóða farmiða á 2.390 krónur en takmarkast það fargjald við ferðir utan háannatíma.

„Farmiðaverð í sætaferðir út á Keflavíkurflugvöll hefur hins vegar almennt hækkað í framhaldi af útboði Isavia og skýringuna á því er meðal annars að finna í auknum kostnaði fyrirtækjanna.

Nú greiða t.d Kynnisferðir, sem reka Flugrútuna, 41,2% af andvirði hvers miða til Isavia og hið opinbera fyrirtæki fær þriðjung af tekjum Hópbíla/Airport Direct. Þessi endurgreiðsla til Isavia er reiknuð út frá 500 milljóna króna lágmarki sem að frádregnum virðisaukaskatti nemur 127 milljónum króna á ári hjá Hópbílum/Airport Direct en 175 milljónum hjá Kynnisferðum/Flugrútunni.

Fyrrnefnda fyrirtækið greiðir því að jafnaði 350 þúsund krónur á dag fyrir aðstöðuna og þarf því daglega að selja um 120 farmiða til að hafa upp í þóknunina til Isavia. Til viðbótar má þess geta að samkvæmt útreikningum Samkeppniseftirlitsins kostar um 20 þúsund krónur að keyra rútu frá Keflavíkurflugvelli og inn til höfuðborgarinnar,“ segir í frétt Túrista.

Hér er hægt að lesa fréttina í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka