„Það er aldrei gaman að horfa á eftir góðu samstarfsfólki en lífið er nú þannig að það skiptast á skin og skúrir,“ segir Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, um uppsögn Björgólfs Jóhannssonar í samtali við mbl.is.
Björgólfur sagði starfi sínu sem forstjóri Icelandair Group lausu í dag samhliða tilkynningu félagsins um lækkun afkomuspár fyrir árið 2018.
Í yfirlýsingu segir Björgólfur að ákvarðanir sem teknar voru á hans vakt hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni á þessu ári og á því beri hann sem forstjóri ábyrgð gagnvart stjórn og hluthöfum.
Úlfar segir aðdragandann að uppsögn Björgólfs ekki hafa verið langan og að ákvörðun hans hafi komið nokkuð á óvart. Hann lítur þó björtum augum til framtíðar.
„Icelandair er fjárhagslega mjög sterkt fyrirtæki með um 25 milljarða króna í sjóðsstöðu núna og með eigið fé yfir 50 milljarða. Það er áfall þegar það gengur ekki vel en vegna þess [sterkrar fjárhagsstöðu] eigum við að geta komist mjög vel frá því, að því gefnu að það sem verið er að vinna að gangi eftir,“ segir Úlfar.
„Og við höfum fulla trú á því. Það er fullt af frábæru starfsfólki hjá Icelandair,“ bætir hann við.
Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair Group, mun taka tímabundið við starfi forstjóra. Stjórn félagsins hyggst taka sér góðan tíma til að finna félaginu forstjóra til framtíðar.
„Við höfum fengið Boga Nils til að sinna þessu verkefni þangað til við höfum fundið eftirmann og munum taka okkur góðan tíma í að skoða það. Það skiptir mjög miklu máli að það sé vandað mjög til þess verks,“ segir Úlfar.
„Við getum auðvitað ekki tekið endalausan tíma í það en við ætlum að vanda okkur. Það verður ekki rokið til í þeim efnum,“ bætir hann við.