Stærsti markaður netverslana frá upphafi

Sara Björk Purkhús, Olga Helena Ólafsdóttir og Eyrún Anna Tryggvadóttir …
Sara Björk Purkhús, Olga Helena Ólafsdóttir og Eyrún Anna Tryggvadóttir standa fyrir haustmarkaði netverslana í Víkingsheimilinu um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stærsti markaður netverslana sem hefur verið haldinn hér á landi fer fram í Víkingsheimilinu um helgina. Vinkonurnar Olga Helena Ólafsdóttir, Eyrún Anna Tryggvadóttir og Sara Björk Purkhús standa að markaðnum en allar reka þær sínar eigin netverslanir.

Fyrir um ári, þegar vinkonurnar voru nýbúnar að stofna sínar netverslanir, voru þær að leita að markaði fyrir netverslanir, en nokkrir minni markaðir hafa verið haldnir áður fyrr. „En við fundum ekkert og ákváðum því að halda okkar eigin markað,“ segir Olga Helena.

Fyrsti markaðurinn var smár í smíðum. Hann fór fram í litlum sal í Síðumúla og tóku 13 netverslanir þátt. Sumarmarkaður netverslana fór svo fram í Þróttaraheimilinu í maí. „Þá tóku 30 netverslanir þátt og það myndaðist langur biðlisti af verslunum sem vildu vera með,“ segir Olga Helena.

Fjöldi fólks lagði leið sína á haustmarkað netverslanna í dag …
Fjöldi fólks lagði leið sína á haustmarkað netverslanna í dag en nóg pláss er í Víkingsheimilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

73 básar á 1.200 fermetrum

Þær ákváðu því að stækka umfangið fyrir haustmarkað netverslana sem fer fram  um helgina í Víkingsheimilinu. Olga Helena segir að síðustu dagar hafi verið ansi strembnir, en þær eyddu til dæmi dágóðum tíma í gær að leggja 1.200 fermetra af gólfmottum á salinn í Víkingsheimilinu.

Alls taka 73 netverslanir þátt um helgina og voru allir búnir að setja upp básana sína þegar dyrnar opnuðust klukkan ellefu í morgun. „Við opnuðum dyrnar tvær mínútur í ellefu. Ég sneri mér rétt svo undan og þegar ég leit aftur inn í salinn var hann orðinn fullur, það var æði hvað þetta gerðist hratt,“ segir Olga Helena.

Búin að kaupa talningavél fyrir næsta markað

Biðröð myndaðist fyrir utan Víkingsheimilið í morgun og stríður straumur var af fólki í allan dag. Þá bárust einnig ábendingar þess efnis að bílum hefði verið lagt ólöglega fyrir utan markaðinn og að lögregla hefði skilið eftir sektarmiða á nokkrum bílum. 

Erfitt er að áætla hversu margir hafi sótt markaðinn en Olga Helena gaf sér smá tíma til að telja fólk sem sótti markaðinn og á 12 mínútum taldi hún rúmlega 350 manns fara um innganginn. „En ég er búin að finna talningatæki á netinu fyrir næsta markað,“ segir hún.

Meðal vara sem eru í boði á markaðnum má nefna …
Meðal vara sem eru í boði á markaðnum má nefna heimils-, snyrti-, hár-, barna-, umhverfis-, gjafa-, og íþróttavörur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jólamarkaður fyrstu helgina í desember

Markaður netverslana er því sannarlega kominn til að vera og eru vinkonurnar strax búnar að taka frá dagsetningu fyrir jólamarkað netverslana sem fer fram fyrstu helgina í desember og verður hann í Víkingsheimilinu líkt og haustmarkaðurinn. „Þetta er góð staðsetning og opið og gott rými,“ segir Olga Helena.  

En hvað er það við netverslanir sem vekur þennan mikla áhuga fólks?

„Ég held að fólki finnist þægilegt að þurfa ekki alltaf að skoða vöruna og eyða tíma í búðunum. Þetta er svo þægilegt „concept“ og svo geta netverslanir oft boðið betra verð,“ segir Olga Helena.

Netverslunum hefur farið ört fjölgandi síðustu ár og fyrirkomulagið eins og það er á haustmarkaðnum, þar sem margar netverslanir koma saman, virðist svo sannarlega slá í gegn hjá viðskiptavinum. „Það eru alltaf einhverjir sem eru smá stressaðir við að kaupa á netinu og þá kannski frekar fólk af eldri kynslóðum sem er stressað að kaupa vörur á netinu. Þá er gott að geta komið, snert vörurnar, fundið lykt og séð efnin. Svo finnst þeim líka oft gott að hitta eigendur verslananna og eigendunum finnst líka gott að geta kynnst viðskiptavinum sínum,“ segir Olga Helena.

Haustmarkaðurinn verður opinn aftur á morgun, frá klukkan 11-17, klukkutíma lengur, vegna mikillar eftirspurnar, að sögn Olgu Helenu. Meðal vara sem eru í boði á markaðnum má nefna heimils-, snyrti-, hár-, barna-, umhverfis-, gjafa- og íþróttavörur. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um markaðinn á Facebook

Haustmarkaðurinn verður opinn aftur á morgun, frá klukkan 11-17, klukkutíma …
Haustmarkaðurinn verður opinn aftur á morgun, frá klukkan 11-17, klukkutíma lengur, vegna mikillar eftirspurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK