Vaxandi áhyggjur einkenna framtíðina

Svo miklar breytingar kunna að vera í vændum að margir …
Svo miklar breytingar kunna að vera í vændum að margir gætu átt erfitt með að aðlagast. Róbotinn Sophia ávarpar gesti á ráðsefnu í Hong Kong. AFP

Fyrirtæki og stofnanir þurfa að vera vakandi fyrir þeirri þróun sem er að eiga sér stað í viðhorfum og þörfum almennings. „Þannig eru þau betur í stakk búin til að skaffa þá þjónustu og vörur sem almenning mun vanhaga um og geta náð betur til fólks í gegnum markaðsstarf sitt,“ segir David Mattin, forstöðumaður alþjóðasviðs hjá félaginu TrendWatching, sem þekkt er fyrir að gefa út vandaðar framtíðarspár.

David verður aðalfyrirlesari á ráðstefnunni Innsýn í framtíðina sem Gallup heldur í Hörpu 11. september næstkomandi. 

Breytingar skapa ugg

Í erindi sínu mun David kafa ofan í nokkra meginstrauma sem líklegt má telja að muni móta komandi ár: „Meðal þess sem verður að skoða eru þær vaxandi áhyggjur sem fólk hefur af hvað framtíðin mun bera í skauti sér. Þessar áhyggjur spanna allt frá breytingum á vinnumarkaði vegna nýrrar tækni, s.s. gervigreindar, yfir í hækkandi fasteignaverð og vaxandi misskiptingu auðs. Fólk bæði óttast um eigin kjör, lífsgæði og atvinnuhorfur, en hefur líka áhyggjur af hvernig aðstæður börnin þess munu þurfa að búa við þegar fram í sækir,“ útskýrir David. „Á sama tíma virðist sem dragi úr trausti á getu stjórnvalda til að bregðast við þessum vandamálum. Það sem hinn almenni borgari vill hvað helst við þessar kringumstæður er að vera „framtíðarvarinn“ (e. future proofed) svo hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af því sem koma skal.“

Í þessari þróun eru fólgin verðmæt tækifæri og nefnir David að kínversk stjórnvöld hafi t.d. markað þá stefnu að mennta ungt fólk á sviði gervigreindartækni og netverslunarrisinn Amazon bjóði núna starfsfólki sínu sem vinnur í vöruhúsum og við dreifingu að sækja námskeið sem eiga að undirbúa það fyrir störf framtíðarinnar. „Í tilviki Íslands kallar þessi þróun m.a. á að skoða hver sérstaða landsins er og hvernig atvinnulífið er búið undir komandi breytingar.“

Hafi gætur á gervigreindinni

Annað atriði sem David vill gefa sérstakan gaum er áhrif gervigreindar á starfsemi fyrirtækja og þróun samfélagsins. Hann segir tæknina skapa mikil tækifæri og ómæld verðmæti en reynslan undafarin misseri hafi sýnt okkur að gervigreind og snjallt algrím geti líka verið mjög vandmeðfarið. „Við stefnum í þá átt að tölvuforrit munu stýra heiminum í æ meira mæli og taka nú þegar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf milljarða manna. Vandinn er sá að forritin eru ekki gallalaus og þau geta gert mistök eða haft veika bletti, alveg eins og mannfólkið.“

David nefnir sem dæmi að það hafi komið í ljós að atvinnuleitarhugbúnaður Google átti það til að mismuna konum þegar kom að því að manna hálaunastörf. Facebook hefur líka verið gagnrýnt fyrir það að forritið sem stýrir samfélagsmiðlinum geti aukið útbreiðslu falsfrétta og hræðsluáróðurs. „Facebook hefur reynt að bæta úr þessu með nýjum hugbúnaði sem þeir kalla Fairness Flow og með því vill fyrirtækið með markvissum hætti koma í veg fyrir óæskilega hlutdrægni.“

Þessi þróun snertir allt atvinnulífið og segir David að fyrirtæki og stofnanir geti m.a. vænst þess að almenningur vilji fá vissu um að sú tækni sem hann kemst í snertingu við taki ekki ákvarðanir sem litast af hlutdrægni. „Jafnvel bara orðalag í snjallsímaforritum og á vefsíðum þarf að vera nægilega hlutlaust, að ekki sé talað um hugbúnaðinn sem notaður er á bak við tjöldin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK