Jón Björnsson hefur látið af starfi forstjóra Festar. Félagið rekur m.a. verslanir undir merkjum Krónunnar og vöruhúsið Bakkann. Jón lætur af störfum í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið féllst á yfirtöku olíufélagsins N1 á öllu hlutafé Festar en gengið hafði verið frá kaupsamningi þar um hinn 3. október í fyrra. Stofnunin tilkynnti að fallist hefði verið á kaupin hinn 30. júlí síðastliðinn.
Jón hafði verið forstjóri Festar frá því í febrúar 2014. Áður gegndi hann m.a. starfi forstjóra ORF Líftækni, Magasin du Nord í Kaupmannahöfn og Haga hf.
Í tölvupósti sem Jón sendi samstarfsfólki sínu fyrir helgi kom fram að þótt hann láti nú af starfi forstjóra Festar þá muni hann gegna embætti stjórnarformanns Krónunnar.
„það fyrirtæki er mér kannski meira hugleikið en önnur því þar höfum við skapað eitthvað alveg sérstakt ...“ sagði hann m.a. í póstinum.
Hann fór einnig yfir síðastliðin fjögur og hálft ár hjá félaginu.
„Ferðalagið með Festi og félög þess er eitthvert skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Afar lærdómsríkt og gaman að taka félög út úr öðru rótgrónu félagi og fá tækifærið að fá að búa til nýtt og ferskt félag frá grunni. Mér þykir sérstaklega vænt um það hvað margir fylgdu okkur úr gömlu félögunum og hafa blómstrað í þessu umhverfi þar sem okkur tókst að teikna upp flotta framtíðarsýn og fylgja þeirri stefnu. Við bættum svo við okkur þar sem okkur skorti þekkingu og fengum inn nýtt fólk. Þannig hefur þessi hópur alltaf unnið sem eitt lið og lið vinna.“
Forstjóri sameinaðs félags N1 og Festar verður Eggert Þór Kristófersson sem verið hefur forstjóri fyrrnefnda félagsins frá því í lok febrúar 2015.
Kaupverð hlutafjár Festar, að teknu tilliti til leiðréttingarákvæða í kaupsamningi, nemur 23,7 milljörðum króna og var það annars vegar greitt með afhendingu ríflega 79,5 milljóna hluta í N1 á genginu 115, eða 9,2 milljarða króna, og hins vegar með ríflega 14,5 milljarða í formi reiðufjár.