Sérfræðingar norska verðbréfafyrirtækisins Pareto Securities reikna með því að flugfélagið WOW air skili tapi upp á 31 milljón dala, sem nemur um 3,3 milljörðum króna á núverandi gengi, eftir skatta á þessu ári. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hins vegar gera þeir ráð fyrir því að umskipti verði í rekstri WOW air á næsta ári og þá muni félagið hagnast um 17 milljónir dala en til samanburðar tapaði flugfélagið 45 milljónum dala á tímabilinu frá júlí á síðasta ári til júní á þessu ári.
Þetta kemur fram í greiningu Pareto sem unnin var vegna yfirstandandi skuldabréfaútboðs WOW air, en norska fyrirtækið hefur yfirumsjón með útboðinu.