Viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is stóð fyrir morgunverðarfundi nú í morgun þar sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, var sérstakur gestur. Ræddi hann í um 40 mínútur við Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu, um ferðaþjónustuna, uppbyggingu Bláa lónsins og þau tækifæri sem hann sér fram undan í íslensku hagkerfi.
Um 100 manns mættu til leiks og spunnust líflegar umræður milli manna, bæði fyrir viðtalið við Grím og eftir.
Í máli sínu sagði Grímur að vöxtur Bláa lónsins hefði verið mikill síðustu árin, en á síðasta ári sóttu um 1,3 milljónir ferðamanna fyrirtækið heim. „Við höfum vissulega gengið í gegnum upp- og niðursveiflur í okkar starfsemi. En það var í raun árið 2011 sem ég áttaði mig á að við værum komin með alþjóðlega sterkt vörumerki í hendurnar. Það gerðist þegar tímaritið National Geographic setti Bláa lónið á lista yfir 25 undur veraldar.“
Hinn 1. apríl síðastliðinn opnaði fyrirtækið svo nýtt lúxushótel við lónið og segir Grímur að sú viðbót við starfsemina hafi fært hana á nýtt og hærra stig.
„Það er ótrúlegur fjöldi mjög efnaðra ferðamanna sem koma til Íslands. Sumir þeirra koma til landsins beinlínis í þeim tilgangi að sækja Bláa lónið heim. Þannig hefur lónið orðið sjálfstætt aðdráttarafl fyrir ferðamenn til að koma til landsins.“
Hann var þá spurður út í verðmiðann á hótelherbergjunum, sem eru frá 40 og upp í 200 fermetra.
„Verðið ferð dálítið eftir því hvenær fólk á leið til landsins en algengt verð fyrir svítu hjá okkur er um 350 til 400 þúsund krónur nóttin. Stóra svítan kostar svo um eina og hálfa milljón sólarhringurinn,“ sagði Grímur og mátti sjá á fundarmönnum að þessar upphæðir komu fólki á óvart.
Grímur bætti því hins vegar við að það væri bjart fram undan fyrir íslenska ferðaþjónustu þótt hagkerfið væri að kólna að einhverju marki. Hann sagði vöxtinn síðustu ár ekki hafa verið sjálfbæran og nú væri tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila til að ná andanum og skipuleggja sig.