Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins mun ekki gera rekstrarsamning sjóðsins við Arion banka opinberan og ber við trúnaði.
Þetta kemur fram í beiðni sem Hróbjartur Jónatansson, hæstaréttarlögmaður og sjóðfélagi í Frjálsa, hefur lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þess efnis að sjóðnum verði gert skylt að afhenda honum samninginn.
Þar að auki hefur hann óskað eftir því að sjóðurinn afhendi þær fundargerðir stjórnar þar sem ákvarðanir varðandi fjárfestingu og lánveitingar í tengslum við kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík voru ræddar og ákveðnar.
Gagnrýnir Hróbjartur í beiðni sinni til héraðsdóms þá ákvörðun stjórnarinnar að afhenda honum ekki rekstrarsamninginn enda leiði það til þess að efni hans sé „aðeins kunnugt stjórnarmönnum sjóðsins, sem flestir sitja fyrir tilskipan og með velþóknun Arion banka hf., en almennir sjóðfélagar hafa enga vitneskju um efni hans“.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að í fyrrnefndri beiðni til dómstóla eru raktar ástæður til þess að efni samningsins skuli gert opinbert. Þar er m.a. bent á að Arion banki, hafi fyrir hönd sjóðsins á árinu 2017 „selt hlutabréf fyrir 37,9 milljarða sem er um 49% af hlutabréfaeign sjóðsins,“ og bent á að slík viðskipti afli bankanum tekna en kosti sjóðinn fjármuni. Auk þess gagnrýnir hann mikinn rekstrarkostnað sjóðsins í samanburði við aðra sjóði af svipaðri stærð.