Bandaríska ráðgjafar- og eignastýringarfyrirtækið State Street Global Advisors hefur fjárfest í íslenska ferðasölufyrirtækinu Guide to Iceland fyrir 20 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2,2 milljörðum íslenskra króna. Eignast félagið 20% í Guide to Iceland með fjárfestingunni, en henni er meðal annars ætlað að byggja undir stækkun markaðstorgsins yfir á erlenda grundu.
Davíð Ólafur Ingimarsson, aðstoðarforstjóri Guide to Iceland, segir í samtali við mbl.is að fyrirtækið hafi talið fjárfestinguna rétta á þessum tímapunkti. „Við erum að skoða stækkun á erlenda markaði, nota þetta íslenska hugvit og hugbúnað og teljum að hægt sé að fara út með vöruna og hugmyndina,“ segir Davíð.
Hann segir allan heiminn í raun vera undir, en nú vinni fyrirtækið að því að setja upp lista yfir þau lönd þar sem það telji ákjósanlegt að setja upp samskonar módel og var gert hér á landi.
Guide to Iceland starfrækir stærsta ferðaþjónustumarkaðstorg landsins, en á guidetoiceland.is koma yfir 500 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki saman og er boðið upp á að bóka ýmiskonar þjónustu sem tengist ferð hingað til lands. Er markaðstorgið heimsótt meira en milljón sinnum á mánuði og fá notendur aðgang að úrvali dagsferða, afþreyingu, pakkaferðum, gistingu og bílaleigubílum. Að auki má þar finna gríðarlegt magn ferðaupplýsinga á níu tungumálum.
Vöxtur fyrirtækisins hefur verið hraður, en það var stofnað árið 2012. Velta þess í fyrra var 4,8 milljarðar án virðisaukaskatts, en var 2,8 milljarðar án virðisaukaskatts árið áður. Hagnaður félagsins í fyrra var 675 milljónir króna og jókst úr 178 milljónum árið 2016.
„Við ætlum að halda áfram á þessari braut,“ segir Davíð og bætir við að félagið hafi þegar gert samninga um svipaða uppbyggingu og hér á landi á Filippseyjum.
Miðað við fjárfestinguna og þann eignarhlut sem State Street Global Advisors fær í Guide to Iceland er félagið verðmetið á 11 milljarða króna.