„Ég get ekki farið út í málsatvik. Ég get sagt að ég fékk upplýsingar sem ég vissi ekki um, eitt atvik sem varð þess valdandi að ég ákvað að kalla saman stjórn. Það gerði ég í gær og þessi ákvörðun var tekin á stjórnarfundi í gær,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Stjórn Orku náttúrunnar, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sagt Bjarna Má Júlíussyni upp störfum sem framkvæmdastjóra félagsins. „Starfslok fyrrverandi framkvæmdastjóra tengjast tilvikum þar sem framkoma hans gagnvart samstarfsfólki var óviðeigandi,“ segir í tilkynningu.
Spurður hvort um mörg óviðeigandi tilvik hafi verið að ræða segir Bjarni Bjarnason að svo hafi ekki verið. „Maður getur sagt að í vissum tilfellum hafi verið almennur samskiptavandi en það er bara eitt tilvik sem ræður þessu,“ segir Bjarni og bætir við að hann hafi frétt af því tilviki í gær.
Einar Bárðarson birti færslu á Facebook síðdegis í gær þar sem hann gagnrýnir forstjóra í stórfyrirtæki harðlega, en um er að ræða Bjarna, forstjóra Orkuveitunnar. Segir Einar að forstjóranum þykir óviðeigandi hegðun í lagi vegna þess að sá sem hafi sýnt af sér slíka hegðun skilaði svo góðum tölum í rekstri.
Bjarni segir að starfslok hafi orðið hjá eiginkonu Einars og í framhaldi af tölvupósti frá honum hafi Bjarni óskað eftir fundi til að ræða málin. „Þar var það algjörlega skýrt af minni hendi og ítrekað að mér væri brugðið og að hegðun sem væri gegn okkar ströngustu prinsippum væri eitthvað sem við litum mjög alvarlegum augum,“ segir Bjarni en upplifun hans af fundinum er önnur en Einars:
„Frásögn hans af fundinum er alls ekki samkvæmt því sem ég sagði. Ég tók skýrt fram að við liðum ekki hegðun sem felur í sér að vikið er frá ströngustu kröfum. Ég sagði líka að þetta væri þannig mál að ég myndi ræða við stjórn Orku náttúrunnar,“ segir Bjarni sem kveðst hafa boðað stjórnarfund samstundis eftir fundinn með Einari.
Bjarni vill ekki tjá sig um alvarleika atviksins sem verður til brottrekstursins en segir Orkuveituna gera miklar kröfur til allra stjórnenda. „Það á alltaf og undantekningarlaust að koma fram við alla af virðingu. Það er enginn afsláttur gefinn. Þetta fór í bága við það og þess vegna var ákvörðunin tekin.“