Afar ólíklegt er talið að stóru bankarnir þrír muni taka þátt í fjármögnun Wow air. Þetta hefur Fréttablaðið í dag eftir heimildarmönnum sínum. Blaðið greindi frá því í gær að forsvarsmenn flugfélagsins hefðu leitað til bankanna. Yfir stendur skuldabréfaútboð félagsins.
Þá segir í frétt Fréttablaðsins að stjórnendur og ráðgjafar Wow air vinni að því að fá erlenda fjárfesta til þess að taka þátt í útboðinu. Vonast þeir til þess að skuldabréfaútboðinu verði lokið á morgun, föstudag.
Í Viðskiptablaðinu í dag er haft eftir heimildarmönnum blaðsins að útilokað sé fyrir bankana að taka þátt í skuldabréfaútboðinu og að mjög erfitt verði fyrir þá að lána WOW, bæði vegna lágs eiginfjárhlutfalls og skorts á veðum. Bankarnir séu nú þegar farnir að herða ólina í útlánum og krefja til að mynda verktaka um allt að 40% eiginfjárhlutfall. Í frétt blaðsins er bent á að eiginfjárhlutfall WOW air sé 4,5%.