WOW air hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að skuldabréfaútgáfa fyrirtækisins, sem unnið hefur verið að síðustu vikur, muni ljúka á þriðjudaginn næsta, 18. september kl. 14.00 á íslenskum tíma. Í tilkynningunni segir: „Nú þegar liggur fyrir að útgáfan verður að lágmarki 50 milljónir evra.“ Sú upphæð jafngildir 6,4 milljörðum króna.
Kjörin sem skuldabréfin verða seld á verða 3 mánaða Euribor-vextir að viðbættu 9% álagi auk trygginga. Skuldabréfin verða gefin út til 3 ára.
Í upplýsingum frá Pareto Securites, sem haft hefur yfirumsjón með skuldabréfaútboðinu hjá WOW air segir að vaxtaviðmiðið sé Euribor-vextir en þó aldrei undir 0%. Í dag eru 3 mánaða Euribor-vextir í 0,319%. Það þýðir að vaxtakjör skuldabréfanna séu 9% að tryggingum viðbættum. Ekki kemur fram í upplýsingunum frá Pareto Securities hverjar þær eru.
Í tilkynningunni kemur auk þess fram að fyrirtækið muni ekki veita viðtöl vegna stöðu félagsins að svo stöddu en að tilkynning um útboðið verði send út í lok dags næstkomandi þriðjudag.