Í skriflegu svari flugfélagsins Wow air við fyrirspurn mbl.is kemur fram að flugfélagið hafi aldrei skuldað Isavia tvo milljarða króna. Flugfélagið vildi ekki svara öðrum spurningum, m.a. um það hvort flugfélagið væri í einhverri skuld við Isavia vegna lendingargjalda, hve há hún væri þá og hve stór hluti hennar væri gjaldfallinn.
„Við tjáum okkur ekki um innihald eða stöðu einstaka samninga við okkar samstarfsaðila, það eru trúnaðarupplýsingar [...],“ sagði í svari Svanhvítar Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra samskiptasviðs WOW air, „en ég get staðfest að við höfum aldrei skuldað Isavia 2 milljarða.“
Í frétt Morgunblaðsins í dag kom fram að flugfélagið skuldaði Isavia um tvo milljarða króna í lendingargjöld og að um helmingur skuldarinnar væri þegar gjaldfallinn. Wow air mun þannig ekki hafa greitt lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli frá því í vor.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, tjáir sig um málið í Facebook-færslu í dag þar sem hann segir frétt Morgunblaðsins ranga „og við höfum aldrei skuldað [Isavia] yfir tvo milljarða króna“.
Samkvæmt nýbirtum árshlutareikningi Isavia höfðu innlendar viðskiptakröfur fyrirtækisins hækkað um 1.220 milljónir króna frá áramótum. Kröfufjárhæðin miðaðist við stöðu viðskipta hjá fyrirtækinu fyrir tíu vikum, eða 30. júní sl. Ekki liggi enn ljóst fyrir með hvaða hætti Isavia hyggist innheimta skuld flugfélagsins.
Í Morgunblaðinu kom einnig fram að Isavia ynni nú að útfærslu á því í samráði við WOW air með hvaða hætti skuldin yrði gerð upp við fyrirtækið.
WOW air sendi frá sér tilkynningu um miðjan dag í gær þar sem greint var frá því að skuldabréfaútgáfa að virði 50 milljóna evra yrði frágengin á þriðjudaginn næsta. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort fjármunir sem aflað verður með útgáfunni verði nýttir til þess að gera upp fyrrnefnda skuld við Isavia.
Isavia ítrekaði það, þegar eftir því var leitað, að fyrirtækið tjáir sig ekki um málefni einstakra viðskiptavina sinna.