Apple hefur gert upp 14,3 milljarða evra skuld sína við írska ríkið. Tvö ár eru síðan framkvæmdastjórn Evrópusambandsins úrskurðaði að sérmeðferð sem Apple hlaut í skattamálum á Írlandi teldist „ólögleg ríkisaðstoð“ og var fyrirtækinu gert að greiða vangoldna skatta með vöxtum.
Samkomulagið tryggði að tæknirisinn greiddi að hámarki 1% tekjuskatt, og árið 2014 var hlutfallið 0,005%.
Evrópskar höfuðstöðvar Apple eru á Írlandi og í krafti skattaskjólsins hefur fyrirtækið veitt tekjum af raftækjasölu innan álfunnar allrar til Írlands. Paschal Donohoe, fjármálaráðherra Írlands, staðfestir á heimasíðu sinni að greiðsla hafi borist frá Apple.
Írska ríkisstjórnin hefur mótmælt úrskurði framkvæmdastjórnarinnar og áfrýjað henni til Evrópudómstólsins, en þangað til hann kemst að niðurstöðu til verður féð í vörslu írska ríkisins.
Margarethe Vestager, samkeppnisstjóri Evrópusambandsins sem kvað upp úrskurðinn á sínum tíma, lýsti yfir ánægju sinni með að greiðsla hefði nú loks borist, á Facebook.
Vestager, sem er dönsk, er ein þeirra sem nefnd hefur verið sem mögulegur arftaki Jean-Claude Juncker í starf forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að loknum kosningum til Evrópuþingsins næsta vor. Vestager tilheyrir bandalagi frjálslyndra (ALDE) en hún sat áður á danska þinginu fyrir Radikale Venstre, sem á aðild að ALDE, og var viðskiptaráðherra Danmerkur frá 2011 til 2014.
Vestager þykir hörð í horn að taka og þetta er langt í frá í fyrsta sinn sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins úrskurðar að aðildarríki hafi veitt stórfyrirtæki skattaskjól. Tímaritið Economist hefur lýst henni sem „stærsta auðhringjabana Vesturlanda“.
Í október 2015 var hollenska ríkinu gert að innheimta 30 milljarða evra (um 3.700 milljarða króna) af kaffihúsakeðjunni Starbucks, sem hafði evrópskar höfuðstöðvar sínar í landinu og lagði sig fram um að sem mest af evrópskri kaffisölu væri gert upp þar. Eftir að rannsókn hófst ákvað fyrirtækið að flytja höfuðstöðvarnar til London.
Sömu sögu er að segja frá Lúxemborg, sem var í fyrra gert að innheimta um 250 milljónir evra, 31 milljarð króna, frá netversluninni Amazon vegna fyrirkomulags sem Amazon og stjórnvöld höfðu gert sem gerði fyrirtækinu heimilt að minnka skattlagðar tekjur niður í „fjórðung þess sem þær voru í raun og veru“ að því er fram kom í úrskurðinum.
Sá úrskurður hefur þótt vandræðalegur fyrir Jean-Claude Juncker en hann var forsætisráðherra Lúxemborgar á árunum 1995 til 2013, þegar umræddir samningar voru gerðir. Þá hefur framkvæmdastjórnin einnig úrskurðað samkomulag lúxemborgískra yfirvalda við ítalska bílaframleiðandann Fiat ólöglegt.