Thomas F. Borgen, bankastjóri danska bankans Danske Bank, sagði af sér í dag. Í tilkynningu sem send var kauphöllinni í Kaupmannahöfn segir Borgen að að bankinn hafi gerst sekur um ábyrgðarleysi vegna mögulegs peningaþvættis í Eistlandi.
Greint var í sumar frá því Danske Bank væri sakaður um að hafa aðstoðað við að þvo 8,3 milljónir Bandaríkjadala í gegnum dótturfélag sitt í Eistlandi og voru fjármunirnir raktir til nokkurra ríkja í Austur-Evrópu.
Danske Bank kynnir nú í morgun niðurstöður rannsóknar sem gerð var á meintu peningaþvætti bankans á árabilinu 2007-2015. Fram kemur í frétt danska ríkisútvarpsins DR, af kynningunni að átta lögregluskýrslur hafi verið gerðar um málið og 42 skýrslur verið unnar fyrir stjórnvöld.
Ole Andersen, formaður nefndarinnar, segir rannsóknina þó ekki geta staðfest að starfsmenn bankans hafi gerst sekir um efnahagsglæpi. Bankinn geti þó heldur ekki staðfest hversu mikið magn þess fjár sem farið hafi í gegnum bankann í Eistlandi tengist peningaþvætti.
„Fjöldi viðvörunarljósa kviknaði sem ekki var brugðist við. Aðstæður urðu miklu verri en við héldum, eða hefðum yfirhöfuð geta ímyndað okkur, þegar við hófum innri endurskoðun okkar,“ sagði Andersen.
Viðvörunarljós hafi í raun kviknað stuttu eftir að Danske Bank tók yfir Sampo-bankann í Eistlandi árið 2007.
„Það er svekkjandi og óásættanlegt að við höfum ekki staðið undir skyldum okkar. Við lítum baráttuna gegn peningaþvætti og efnahagsglæpum mjög alvarlegum augum,“ sagði hann. Danske Bank muni gera allt sem á sínu valdi standi til að slíkt gerist aldrei aftur.